Dæmd fyrir að myrða barnabarn sitt

Carmela Dela Rosa
Carmela Dela Rosa

Kviðdómur í Virginíu í Bandaríkjunum vill dæma fimmtuga konu í 35 ára fangelsi fyrir að henda tveggja ára dótturdóttur sinni fram af göngubrú, með þeim afleiðingum að stúlkan lést.

Carmela dela Rosa var í gær dæmd fyrir morð að yfirlögðu ráði. Hinn hörmulegi atburður átti sér stað í nóvember í fyrra og var Dela Rosa á 15 metra hárri göngubrú sem tengdi bílastæðaplan við verslanamiðstöð. Upptökur úr öryggismyndavél sýna hana skyndilega grípa stúlkuna og kasta henni yfir handriðið. Dela Rosa sagðist hafa verið gripin stundarbrjálæði og í vitnisburði sínum sagði sálfræðingur hennar hana þjást af miklu þunglyndi. Saksóknari sagði hins vegar að reiði, hatur og hefndarþorsti í garð föður stúlkunnar hefði verið ástæða morðsins, þar sem hann hefði barnað dóttur Dela Rosa utan hjónabands.

Saksóknari krafðist lífstíðarfangelsis en kviðdómurinn mæltist til þess að hún yrði dæmd í 35 ára fangelsi. Ákvörðun um lengd refsingarinnar verður tekin í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert