Merkel og Sarkozy funda um skuldakreppuna

Angela Merkel og Nicolas Sarkozy
Angela Merkel og Nicolas Sarkozy Reuters

Leiðtogar Frakklands og Þýskalands, tveggja stærstu hagkerfa Evrópu, Nicolas Sarkozy og Angela Merkel, eiga fund í Berlín í dag. Helsta umræðuefnið á fundinum verður skuldakreppan á evrusvæðinu og hvernig staðið verður að endurfjármögnun bankakerfisins.

Einhverjir evrópskir bankar ramba á barmi gjaldþrots vegna skuldakreppunnar, einkum og sér í lagi vegna grískra skuldabréfa. Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur varað við afleiðingum skuldakreppunnar á evrusvæðinu og hvaða áhrif hún geti haft á hagkerfi heimsins. Hvetur hann leiðtoga evruríkjanna að grípa fljótt til aðgerða svo heimskreppu verði afstýrt.

Síðar í dag mun stjórn Dexia-bankans koma saman til fundar í Brussel en bankinn rambar á barmi gjaldþrots. Matsfyrirtækin hafa lækkað lánshæfiseinkunn Ítalíu og Spánar og Moody's hefur varað við því að fyrirtækið kunni að lækka lánshæfiseinkunn belgíska ríkisins vegna bágrar stöðu Dexia.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert