Ljós bönnuð undir 18 ára

Bann við ljósabekkjanotkun.
Bann við ljósabekkjanotkun. mbl.is

Kaliforníubúum yngri en 18 ára verður bannað að stunda ljósabekki frá og með  1. janúar á næsta ári. Kaliforníuríki er fyrst bandarískra ríkja til að koma á slíku banni en mörg ríki hafa reglur varðandi ljósabekkjanotkun. Samskonar bann var samþykkt á Íslandi á síðasta ári.

Hingað til hefur unglingum á aldrinum 15-17 verið að heimilt að fara í ljós í Kaliforníu ef þeir geta sýnt fram á leyfi frá foreldrum. Börnum 14 ára og yngri hefur verið bannað að fara í ljós.

Texasríki bannar notkun sólarbekkja þeim sem eru yngri en 16 ára og fleiri ríki eru að íhuga bann við ljósabekkjanotkun ungmenna undir 18 ára aldri.

Bannið er sett af heilsufarsástæðum en sýnt hefur verið fram á tengsl ljósabekkjanotkunar og húðkrabbameins. Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna (WHO) hefur fært ljósabekki í hæsta áhættuflokk hvað varðar krabbameinsvalda.

England og Wales samþykktu í vor að banna ungmennum undir 18 ára aldri að nota ljósabekki en áður hafði samskonar bann verið samþykkt í Skotlandi. Stjórnvöld í Brasilíu hafa gripið til róttækari ráða og bannað ljósabekkjanotkun í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert