Mótmælt við kauphöllina í Toronto

Frá St. James garðinum í Toronto í dag
Frá St. James garðinum í Toronto í dag Reuters

Um þrjú hundruð tóku þátt í mótmælum í miðborg Toronto í Kanada í kvöld. Fór hópurinn meðal annars að kauphöll borgarinnar. Í borginni Montreal tóku nokkur hundruð þátt í mótmælum í garði í miðborginni.

Mótmælin í Kanada eru líkt og mótmæli víða um heim þessa dagana sprottin upp úr mótmælum á Wall Street, fjármálahverfi New York-borgar, en almennir borgarar virðast vera búnir að fá sig fullsadda á því valdi sem fjármálaheimurinn hefur yfir stjórnmálamönnum og stöðu efnahagsmála.

Meðal þeirra sem tóku til máls á fundi mótmælenda í Toronto er Brigette DePape, sem vakti mikla athygli í Kanada í júní sl. þegar hún truflaði fund öldungadeildar Kanadaþings með því að halda uppi skilti sem stóð á: Stöðvum Harper, og vísaði þar til Stephens Harpers forsætisráðherra.

Sagði hún í kvöld að þegar fólk kæmi saman á götum úti til þess að láta til sín taka yrði til samtakamáttur sem vildi breytingar. Mótmælendurnir ætla ekki að láta staðar numið og segjast ætla að mótmæla fram á vetur. 

Joe Scalia, 24 ára, frá Windsor í Ontario hefur eytt tveimur síðustu nóttum í Saint James-garðinum ásamt fleiri mótmælendum. Hann sagðist vera með tvöfalda háskólagráðu og hefði unnið fyrir hið opinbera. Hann væri með góða ferilskrá en það breytti engu, hann fengi enga vinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert