Reiðir farþegar á Gatwick

Gatwick flugvöllur.
Gatwick flugvöllur. Reuters

Lögregla var kölluð í flugvél indverska ríkisflugfélagins Air India á Gatwick flutvelli í Lundúnum í gær vegna reiðra farþega, sem voru búnir að bíða í flugvélinni í 9 klukkustundir.

Flugvélin, sem er af gerðinni Boeing 777, kom frá Ahmedabad og átti að lenda á Heathrow flugvelli í Lundúnum klukkan 7 í gærmorgun en vegna þoku neyddust flugmenn vélarinnar til að lenda henni á Gatwick. 

Þótt þokunni létti fljótlega var ekki hægt að fljúga vélinni strax til Heathrow vegna reglna um hvíldartíma flugáhafna. Því þurfti að bíða eftir nýrri áhöfn og sú bið varð nokkuð löng því ökumaður bíls, sem ók áhöfninni frá Heathrow til Gatwick villtist á leiðinni. 

Rahul Joglekar, fréttamaður BBC, var í vélinni og hann segir að farþegarnir hafi orðið „afar, afar reiðir." Hópur farþega hefði safnast saman við stjórnklefann og krafist skýringa frá flugmanninum en flugmennirnir neituðu að koma fram. 

Flugvélin hélt loks til Heathrow klukkan 17:30 í gær og hafði þá staðið á flugbrautinni á Gatwick í 9 stundir. Farþegarnir voru þá aðframkomnir af hungri enda allar vistir á þrotum.

Talsmaður Gatwick sagði að það hefði verið ákvörðun flugfélagsins að halda farþegunum inni í vélinni frekar ern að aka þeim með rútum milli flugvallanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert