Van Gogh framdi ekki sjálfsmorð

Sjálfsmynd eftir Van Gogh sem gerð er eftir að hann …
Sjálfsmynd eftir Van Gogh sem gerð er eftir að hann missti eyrað. mbl.is

Hollenski listamaðurinn Vincent Van Gogh svipti sig ekki lífi eins og ætíð hefur verið talið, heldur varð hann fyrir slysaskoti tveggja drengja sem áttu bilaða byssu. Þessu halda höfundar nýrrar ævisögu listmálarans fram.

Van Gogh var aðeins 37 ára gamall þegar hann lést í Frakklandi árið 1890. Þar dvaldi hann á gistihúsi í grennd við hveitiakra, sem hann vann að því að mála og lengi hefur verið talið að hann hafi skotið sjálfan sig úti á ökrunum. Þaðan staulaðist hann svo til baka á gistihúsið þar sem hann lést.

Í bókinni Van Gogh: The Life, sem nýlega kom út og byggir á 10 ára rannsóknarvinnu höfundanna Steven Naifeh og Gregory White Smith, segir hinsvegar að það liggi alveg ljóst fyrir að Van Gogh hafi ekki haldið út á akrana þennan dag með það í huga að drepa sig.

„Almennur skilningur fólks sem þekkti hann vel var sá að hann var drepinn fyrir slysni af tveimur piltum og hann hafi ákveðið að hlífa þeim með því að taka sjálfur sökina," segir Naifeh. Í bókinni eru 28.000 neðanmálsgreinar þar sem m.a. er vísað í þúsundir sendibréfa, m.a. frá Van Gogh sjálfum, sem ekki hafa áður verið birt.

Ýmsar frekari röksemdir eru færðar fyrir atburðarásinni í bókinni og þykja þær nokkuð sannfærandi. White Smith segir að líklega hafi verið um að ræða manndráp af gáleysi. Van Gogh hafi ekki „verið í sjálfsmorðshugleiðingum en þegar dauðinn bankaði upp á þá tók hann honum opnum örmum".

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert