179 stungur sagðar vera sjálfsmorð

Danskur lögreglubíll.
Danskur lögreglubíll. politiforbundet.dk

Andlát 55 ár gamallar kennslukonu í Ans, skammt frá Viborg í Danmörku var afgreitt sem sjálfsmorð þegar hún fannst látin árið 2003 í svefnherbergi sínu. Á líkama hennar voru 179 hnífstungur.

Læknir taldi að þörf væri á að skoða málið nánar, en lögregla staðhæfði að ekkert annað en sjálfsmorð kæmi til greina.

Þetta kemur fram á vefsíðu danska dagblaðsins B.T.  Þar er því haldið fram að kastað hafi verið til höndunum við rannsókn málsins og að lögregla hafi litið framhjá mikilvægum vísbendingum.

Eiginmaður hinnar látnu, sem hét Edith Hindhede Christiansen, tilkynnti andlátið sem sjálfsmorð, en aðstæður á vettvangi voru á þann veg að lögreglumenn sem komu á vettvang fylltust strax grunsemdum. Konan lá hálfnakin í rúminu, blóðslettur voru upp um alla veggi og lampa hafði verið velt um koll.

Hún var með hnífstungur og skurði í hnakka, ofan á höfði, hálsi, andliti. handleggjum og höndum og á milli fótanna. Þessir staðir þykja ekki dæmigerðir fyrir áverka sem fólk veitir sér sjálft.

Eiginmaðurinn var aldrei yfirheyrður og húsið var aldrei rannsakað. Lögreglumennirnir sem komu á vettvang báðu um aðstoð frá rannsóknarlögreglunni í Viborg eftir ráðleggingar frá lækni á vettvangi. Enginn slíkur var á vakt, en eftir nokkra leit fékkst lögreglumaður, sem kom á staðinn, ræddi stuttlega við eiginmann hinnar látnu og svipaðist um. Að því loknu sagði hann að um sjálfsmorð hefði verið að ræða og að engin þörf væri á frekari rannsókn.

Hvorki sérfræðingar né tæknimenn voru kallaðir á vettvang til að kanna vegsummerki.

Frétt B.T.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert