Segir Líbíu verða hófsamt múslimaríki

Mustafa Abdel Jalil, leiðtogi þjóðarráðsins í Líbíu, sagði í dag að Líbía yrði hófsamt múslimaríki. Athygli vakti í gær að Jalil lýsti því yfir að ný stjórnarskrá landsins yrði byggð á íslömskum sjaríalögum sem m.a. heimila fjölkvæni.

„Ég vil fullvissa alþjóðasamfélagið um að við Líbíumenn erum múslimar en hófsamir múslimar," sagði Jalil í dag. 

Franska utanríkisráðuneytið sagði í dag að náið yrði fylgst með því hvort Líbíumenn virtu mannréttindi í ljósi yfirlýsingar Jalils í gær um sjaríalögin. 

Og Catherine Ashton, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði einnig að Líbíumenn yrðu að virða mannréttindi þegar sjaríalög yrðu tekin upp. Bandaríska utanríkisráðuneytið tók í sama streng.  

Jalil sagði í dag að ný bráðabirgðaríkisstjórn yrði mynduð innan hálfs mánaðar. Í kjölfarið á að kjósa stjórnlagaþing til að semja nýja stjórnarskrá. Verða það fyrstu lýðræðislegu kosningarnar í landinu frá því Muammar Gaddafi rændi völdum árið 1969.  Loks á að kjósa nýtt þing og forseta innan 20 mánaða. 

Jalil sagði einnig að skipuð hefði verið nefnd til að rannsaka það hvernig dauða Gaddafis bar að sl. fimmtudag.  Bandaríkjastjórn hvatti ráðamenn í Líbíu í dag einnig til að rannsaka ásakanir um að fjöldi stuðningsmanna Gaddafis hefði verið tekinn af lífi án dóms og laga á síðustu dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert