Mun Kína bjarga ESB?

Klaus Regling, forstjóri björgunarsjóðs ESB.
Klaus Regling, forstjóri björgunarsjóðs ESB. Reuters

Engar formlegar viðræður eru í gangi á milli Evrópusambandsins og kínverska yfirvalda um að Kínverjar fjármögnun björgunarsjóð ESB, EFSF, en áður hafði verið leitt að því líkum. Klaus Regling, forstjóri sjóðsins er nú staddur í Peking og hefur heimsóknin ýtt undir vangaveltur af þessu tagi, ekki síst þar sem Japanar munu fjármagna sjóðinn.

Engar upplýsingar hafa verið veittar um hvert erindi Reglings er til Kína eða hverja hann muni hitta í þessari för hans, en leiðtogar Evrópusambandsríkjanna ræddu á fundi sínum í gær um þann möguleika að fá Kína og önnur stór ríki til að koma að fjármögnun sjóðsins.

Ríkisfjölmiðlar í Kína staðhæfa að stjórn landsins muni leggja fé í EFSF, en það hefur ekki fengist staðfest hjá yfirvöldum. Ríkisfréttastofan Xinhua sagði í gær að Evrópubúar ættu að taka ábyrgð á eigin ástandi og ekki reiða sig á hjálpsama Samverjann til að koma sér til bjargar.

Margir gætu átt erfitt með að skilja hvers vegna Kínverjar ættu að aðstoða skuldug Evrópuríki þegar víða er pottur brotinn í Kína. Þar búa margir við kröpp kjör í lélegu húsnæði og hækkandi matvælaverð hefur haft mikil áhrif á fátæka íbúa landsins.

Nokkrir möguleikar hafa verið nefndir um hvernig Kína gæti komið evrusvæðinu til bjargar. Kínverjar gætu fjárfest beint í EFSF með því að leggja fé í sérstakan sjóð, sem yrði í umsjá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, með því að fjárfesta í evrópskum bönkum eða með því að kaupa skuldir einstakra evruríkja.

Skömmu eftir að samkomulaginu um stækkun björgunarsjóðsins var náð í gær, hringdi Nicolas Sarkozy forseti Frakklands í Hu Jintao, forseta Kína. „Ef Kínverjar, sem eiga 60% af fjármagni heims, ákveða að fjárfesta í evrunni í stað dollarans, þá förum við varla að neita þeim um það,“ sagði Sarkozy í sjónvarpsviðtali. „Það myndi ekki hafa áhrif á sjálfstæði okkar á neinn hátt.

Kínverjar hafa fjárfest umtalsvert í evrópskum skuldabréfum og hafa ítrekað hvatt Evrópu til að leysa skuldavanda sinn. Þeir segja að of mikil áhætta hafi verið tekin, sem hefði getað leitt til heimskreppu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert