Mugabe hótar Sviss hefndum

Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, hefur hótað að hefna þess að …
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, hefur hótað að hefna þess að eiginkona hans og háttsettir embættismenn fengu ekki vegabréfsáritun til Sviss. Reuters

Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, hefur varað Svisslendinga við því að hann muni „svara í sömu mynt“ eftir að eiginkona hans og háttsettir embættismenn fengu ekki vegabréfsáritun til að sækja fund á vegum Sameinuðu þjóðanna í Sviss.

Þetta kom fram í fjölmiðlum í Zimbabwe í dag. „Nú sýna þeir sitt illa innræti og við munum gjalda þeim í sömu mynt því þeir eiga eignir hér,“ sagði Mugabe í ríkisrekna dagblaðinu Herald.

„Við erum ekki alveg bjargarlaus hvað varðar endurgjald,“ sagði Mugabe. „Það er brot á reglum og reglugerðum landa þar sem fundir Sameinuðu þjóðanna eru haldnir.“

Grace, eiginkona Mugabe, einkalífvörður hans og fjórir aðrir háttsettir embættismenn fengu ekki vegabréfsáritun til að sækja fund Alþjóðlega fjarskiptasambands Sameinuðu þjóðanna í Sviss. Því þurftu þau að hætta við ferðina.

Sexmenningarnir eru á lista Evrópusambandsins sem Sviss hefur einnig samþykkt og gefinn var út vegna refsiaðgerða gagnvart Zimbabwe.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert