Kröfu vísindakirkjunnar hafnað

Höfuðstöðvar vísindakirkjunnar í Berlín. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Höfuðstöðvar vísindakirkjunnar í Berlín. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Reuters

Franskur dómstóll hafnaði í dag kröfu vísindakirkjunnar um að vísa frá máli þar sem kirkjan var dæmd til að greiða háar sektir fyrir að hafa féflett meðlimi sína. Áfrýjaði kirkjan dómnum sem felldur var árið 2009 en sem liður í henni reyndu lögfræðingar hennar að fá upphaflega málið niðurfellt. Dómstólinn vísaði hins vegar kröfunum frá og heldur áfrýjunarmálið því áfram.

Var vísindakirkjunni í Frakklandi og bókabúð hennar í París gert að greiða jafnvirði rúmra 95 milljóna króna í sektir fyrir að misnota fjárhagslega nokkra meðlimi sína á 10. áratug síðustu aldar.

Hófst málið þegar tvær konur lögðu fram kvartanir gegn kirkjunni. Önnur þeirra bar að hún hafi verið fengin til þess að greiða jafnvirði rúmra þriggja milljóna króna fyrir vörur vísindakirkjunnar árið 1998, þar á meðal „rafmæli“ til þess að mæla hugarkrafta.

Hin konan hélt því fram að starfsmenn kirkjunnar hefðu neytt hana til að gangast undir tilraunir og að skrá sig á námskeið sama ár. Þegar hún neitaði var hún rekin úr kirkjunni.

Vísindakirkjan var stofnuð árið 1954 af vísindaskáldsagnahöfundinum L. Ron Hubbard og eru hún viðurkennd sem trúarstofnun í Bandaríkjunum. Á hún sér um tólf milljón fylgismenn um allan heim, þar af 45 þúsund í Frakklandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert