Slæm byrjun hjá danskri ríkisstjórn

Helle Thorning Schmidt, forsætisráðherra Dana.
Helle Thorning Schmidt, forsætisráðherra Dana. Reuters

Ný ríkisstjórn mið- og vinstriflokka í Danmörku byrjar valdatíma sinn ekki sérlega vel og skoðanakannanir, sem birtar voru um helgina, sýna að danskir kjósendur virðast sjá eftir að hafa komið Helle Thorning-Schmidt, leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins, í forsætisráðherrastólinn.

Samkvæmt skoðanakönnun, sem Jyllands-Posten birti í gær, telja aðeins 27,3% Dana að Thorning-Schmidt sé best til þess fallin að takast á við efnahagserfiðleika sem hagfræðingar sjá framundan í Danmörku. 46,4% sögðust hins vegar telja að Lars Løkke Rasmussen, leiðtogi Venstre og fyrrverandi forsætisráðherra, væri heppilegasti leiðtoginn í þeirri stöðu.

Í samskonar könnun í janúar sögðust 44,5% treysta Lars Løkke best til að fást við efnahagssamdrátt en 37,2% sögðust treysta Thorning-Schmidt best. 

Þá birtir Berlingske í dag könnun, sem sýnir að fylgi Venstre hefur stóraukist á þeim tveimur mánuðum, sem liðnir eru frá þingkosningunum í Danmörku, en á sama tíma hefur fylgi Jafnaðarmannaflokksins minnkað mikið.

Samkvæmt könnuninni myndi Venstre bæta við sig 8 þingsætum ef kosið væri nú en Jafnaðarmannaflokkurinn tapa fjórum þingsætum. Núverandi stjórnarandstaða fengi öruggan meirihluta. 

Blaðið hefur eftir Rune Stubager, stjórnmálafræðingi hjá Árósaháskóla, að þessi könnun endurspegli að nýja ríkisstjórnin hafi þurft að fást við ýmis vandamál í fjölmiðlum sem hafi skyggt á stærri málin og þá staðreynd að bæði sé búið að leggja fram fjárlagafrumvarp og nýja hagvaxtaráætlun.

Þá hafi Venstre-liðar komið fullir sjálfstrausts frá þingkosningunum og ráðist harkalega á nýju ríkisstjórnina. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert