Ríkjum verði gert kleift að yfirgefa evruna

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Reuters

Kristilegir demókratar í Þýskalandi, stjórnmálaflokkur Angelu Merkel kanslara landsins, samþykktu í gær ýtarlega ályktun sem þykir gefa innsýn í það sem rætt sé um í þýsku ríkisstjórninni um framtíð Evrópusambandsins og evrusvæðisins. Fréttavefurinn Euobserver.com segir frá þessu í dag.

Samkvæmt ályktuninni ber að kalla saman sérstaka samkundu sem hafi skýrt umboð til þess að breyta sáttmálum ESB. Breytingarnar snúi meðal annars að því að evruríkjum sem hegði sér með óásættanlegum hætti í efnahagsmálum verði sjálfkrafa refsað og að hægt verði að kæra þau til dómstóls sambandsins. Ennfremur að evruríki sem sýna viðvarandi skort á vilja eða getu til þess að fara að reglum evrusvæðisins verði gert kleift að yfirgefa svæðið „að eigin frumkvæði“.

Eins og sakir standa eru engar reglur til staðar sem kveða á um að hægt sé að yfirgefa evruna en sá möguleiki var fyrst ræddur fyrir alvöru í tengslum við umræðu um hugsanlegt þjóðaratkvæði á Grikklandi um veru landsins á evrusvæðinu sem nú hefur verið hætt við.

En áður en til þess kunni að koma að ríki þurfi að yfirgefa evrusvæðið gerir ályktun kristilegra demókrata í Þýskalandi ráð fyrir að settur verði embættismaður frá ESB yfir þau ríki sem glíma við skuldavanda sem hafi yfirumsjón með útgjöldum viðkomandi ríkis og endurskipulagningu. Slíkur aðili myndi hafa vald til þess að taka nauðsynlegar ákvarðanir ef ríkin reyndust ekki fær um að uppfylla skyldur sínar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert