Gagnslausar vindmyllur

Filippus prins.
Filippus prins. Reuters

Filippus prins, eiginmaður Elísabetar Englandsdrottningar, hefur enga trú á vindmyllum til rafmagnsframleiðslu og lýsti því yfir við forsvarsmann eins vindorkufyrirtækis, að vindorkuver væru „algerlega gagnslaus."

Esbjorn Wilmar, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Infenergy, sem framleiðir hreyfla fyrir vindmyllur, segist í samtali við blaðið Sunday Times hafa hitt Filippus í móttöku í Lundúnum og reynt að sannfæra hann um ágæti slíkrar raforkuframleiðslu.

„Hann sagði, að þær væru algerlega gagnslausar og byggðu á styrkjum og væru algerlega til skammar," sagði Wilmar við blaðið. Sagði hann prinsinn hafa lýst þeirri skoðun, að þeir sem hefðu trú á vindorkuverum tryðu á ævintýri.  

„Ég var undrandi á því hvað hann var opinskár," segir Wilmar við blaðið. 

Hann segist hafa lagt það til við prinsinn, að hann léti reisa vindorkustöð á landareign sinni en Filippus svaraði að bragði: „Þú skalt ekki koma nálægt mínu landi, ungi maður."  

Bresk stjórnvöld hafa það á stefnuskrá sinni, að byggja fleiri vindorkuver. 

Hertoginn af Edinborg, sem varð níræður í sumar, hefur oft lent í vandræðum vegna ummæla, sem hann hefur látið falla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert