Í verkfall vegna skerðingar á lífeyri

David Cameron forsætisráðherra hefur hvatt opinbera starfsmenn að fallast á …
David Cameron forsætisráðherra hefur hvatt opinbera starfsmenn að fallast á tillögur sínar. Reuters

Búist er við að gríðarleg röskun verði á allri opinberri þjónustu í Bretlandi á miðvikudag þegar opinberir starfsmenn hafa boðað verkfall til að mótmæla breytingum á lífeyrisréttindum þeirra.

Starfsemi um 20 þúsund skóla mun leggjast af á miðvikudaginn, en einnig má búast við mikilli röskun á starfsemi flugvalla og spítala. Þetta eru mestu aðgerðir opinberra starfsmanna í Bretlandi síðan á áttunda áratugnum.

Stjórnvöld hafa kynnt tillögur um breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna, en þær mæta mikilli andstöðu opinberra starfsmanna. Stjórnvöld segja að þrátt fyrir skerðingu eigi opinberir starfsmenn eftir sem áður völ á betri eftirlaunum en þorri launafólks í Bretlandi.

Skoðanakannanir sýna takmarkaðan stuðning almennings við boðað verkfall. Forystumenn opinberra starfsmanna saka stjórnvöld um að draga upp ranga mynd af þeim breytingum sem boðaðar hafa verið. Þær séu mun meira íþyngjandi fyrir opinbera starfsmenn en gefið sé til kynna.

Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna í Bretlandi er eins og mörg önnur lífeyriskerfi í Evrópu. Iðgjöld standa ekki undir útgjöldum og því þarf ríkissjóður að greiða það sem upp á vantar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert