Gríðarlegur fjöldi mótmælenda

Fjöldi fólks streymdi inn á Bolotnaja torg í Moskvu til …
Fjöldi fólks streymdi inn á Bolotnaja torg í Moskvu til að mótmæla kosningasvindli í nýafstöðnum þingkosningum. Reuters

Gríðarlegur mannfjöldi er samankominn í miðborg Moskvu, að sögn Ingólfs Skúlasonar sem býr í borginni. Hann taldi að miklu fleiri en 30.000 hefðu safnast saman á Bolotnaja-torgi (Mýrartorgi). Kosningasvikum í rússnesku þingkosningunum verður einnig mótmælt í Reykjavík.

Ingólfur var staddur á brú yfir Moskvu-ána sunnan við Kreml þegar mbl.is ræddi við hann. „Það er alveg mannhaf hér,“ sagði Ingólfur. „Þetta er feikilegur mannfjöldi, miklu meira en 30.000.“ Hann sagði að allt hefði farið friðsamlega fram og mikil öryggisgæsla væri við torgið.

Hann sagði að miklu minni umferð væri í miðbænum en vant er á laugardegi, ekki nema 20-30% af því sem hún væri venjulega. Ekki bæri mikið á því að fólk bæri hvíta borða en þó væru nokkrir með þá.

Norska sendiráðið í Moskvu varaði Norðmenn í borginni við því að blanda sér í mótmælin, fara gætilega og fylgja fyrirmælum stjórnvalda og fylgjast með fréttum.

Mótmælin gegn kosningasvikunum hófust snemma í morgun austast í Rússlandi. Um þúsund manns komu saman í Vladivostok við Kyrrahafsströnd Rússlands. Rússnesk fréttastofa sagði að um 20 manns hefðu verið handteknir í borginni Khabarovsk, sem er um 30 km frá kínversku landamærunum.

Búist var við að tugir þúsunda mótmælenda myndu fara á mótmælasamkomur allt frá Vladivostok í austri til Kaliníngrad í vestri, en á milli þessara borga eru liðlega 7.400 km. Þetta eru mestu mótmæli í Rússlandi frá því Vladimír Pútín komst til valda árið 2000.

Mótmælt í Reykjavík

Hópur fólks ætlar að mótmæla kosningasvikum í rússnesku þingkosningunum við rússneska sendiráðið í Garðastræti milli klukkan 13.00 og 14.00 í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert