93 ára heiðruð fyrir hugdirfsku

Belgíska hjúkrunarkonan Augusta Chiwy var í dag heiðruð af bandaríska …
Belgíska hjúkrunarkonan Augusta Chiwy var í dag heiðruð af bandaríska hernum fyrir hugdirfsku í Seinna stríði. AP

93 ára gömul belgísk-kongósk hjúkrunarkona, sem bjargaði hundruðum særðra Bandaríkjamanna í heimsstyrjöldinni síðari, var í dag heiðruð fyrir hugdirfsku af bandaríska hernum.

Hjúkrunarfræðingurinn aldni, Augusta Chiwy, tók í dag við verðlaununum úr hendi bandaríska sendiherrans í Belgíu, Howards Gutmans. Við athöfnina sagði hann að ástæða þess að það hefði tafist um 67 ár að veita Chiwy viðurkenninguna væri sú að ranglega hefði verið talið að hún hefði fallið í stríðsátökunum.

Chiwy bauð sig fram í sjúkrabúðum hersins í bænum Bastogne, þar sem ríkti umsátursástand í miðri orrustunni um Ardennafjöll í desember 1944. Þegar hana bar að var aðeins einn læknir í búðunum sem hafði ekki undan álaginu. Chiwy hélt út á vígvellina mót skothríð óvinahersins til að finna særða hermenn og flytja þá í sjúkrabúðirnar.

Orrustan um Ardennafjöll var síðasta sóknartilraun Hitlers og jafnframt síðustu stóru átökin milli nasista og bandamanna á vesturvígstöðvunum. Orrustan stóð í sex vikur og áætlað er að 80.000 bandarískir hermenn og allt að tvöfalt fleiri Þjóðverjar hafi særst eða fallið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert