Áfengis- og bikíníbann í Egyptalandi?

Ungar konur í bikíní sundfötum. Líklegt er að slík sundföt …
Ungar konur í bikíní sundfötum. Líklegt er að slík sundföt verði bönnuð í Egyptalandi á næstu misserum. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Reuters

Egypskir fararstjórar og verslunareigendur eiga í deilum um það hvaða áhrif það muni hafa á ferðaþjónustu í landinu ef íslamistar ná meirihluta á egypska löggjafarþinginu.

Önnur lota egypsku þingkosninganna fer fram í dag, en samtals eru þrjár lotur. Þingkosningarnar eru þær fyrstu í landinu síðan fyrrverandi forseta landsins, Hosni Mubarak, var steypt af stóli í febrúar síðastliðnum. Allar líkur eru taldar á því að flokkar íslamista muni vinna stórsigur í þingkosningunum.

Deilurnar stafa af stefnumáli hins íhaldssama Al-Nour flokks, sem skipaður er salafista-íslamistum, þess efnis að ferðaþjónustan í Egyptalandi verði látin fylgja svokölluðum „halal“ reglum, en það er tilvísun í allt það sem er leyfilegt samkvæmt íslömskum lögum og reglum.

Ef „halal“ reglurnar verða að raunveruleika verður ferðamönnum bannað að neyta áfengis og ganga um i bikíní. Einnig yrði konum og körlum bannað að fara saman á baðströnd eða ofan í sundlaug.

„Fimm stjörnu hótel með engu áfengu, sérstakri strönd fyrir konur - systur - sem yrði lokuð karlmönnum, í flóa þar sem báðar hliðar geta notið frísins án þess að syndga,“ sagði Yasser Burhami, áhrifamikill klerkur, í viðtali við vefsíðuna The Arabist síðastliðinn sunnudag.

„Ferðamenn þurfa ekki að synda í bikíníum og spilla æsku landsins,“ sagði Nader Bakkar, talsmaður Al-Nour flokksins í viðtali við sjónvarpsstöðina CBC síðastliðinn laugardag og bætti við „við viljum ekki banna ferðamennsku, heldur þvert á móti viljum við margfalda arðbærni ferðaþjónustunnar.“

Imed, eigandi úlfaldaleigu í nágrenni við pýramídanna, starfar i mikilli fjarlægð frá ströndunum þar sem áfengi og bikíní eru ennþá leyfð, en hann er þó strax farinn að finna fyrir þeirri fækkun ferðamanna sem hefur átt sér stað síðan Mubarak var steypt af stóli. Hann bíður örvæntingarfullur eftir því að ferðamönnum fjölgi á ný og segist fullviss um að ferðaþjónusta landsins sé dauðadæmd ef íslamistar ná þingmeirihluta eftir kosningarnar. Þess má geta að heildartekjur af ferðaþjónustu Egyptalands jafngilda um 10% af vergri landsframleiðslu landsins.

„Íslamistarnir munu leggja lífsafkomu okkar í rúst,“ sagði Imed og bætti við „þess vegna verðum við að kjósa Egygptian Bloc eða Wafd flokkinn, vegna þess að lífsafkoma okkar er háð ferðaþjónustunni.“ Egyptan blokk og Wafd eru frjálslyndir flokkar sem leggja m.a. áherslu á trúfrelsi.

Ibrahim Harbi Mohammed, verslunareigandi, er annarrar skoðunar. Mohammed segir nauðsynlegt að gera greinarmun á annars vegar salafistum og Al-Nour flokknum, sem var stofnaður fyrir aðeins sex mánuðum, og hinsvegar hinu 80 ára gamla Íslamska Bræðralagi og stjórnmálaafli þess, Frelsis- og Réttlætisflokknum.

„Hið raunverulega vandamál eru salafistarnir; þeir eru alltof öfgafullir,“ segir Mohammed og bætir við „þeir hurfu í næstum því þrjátíu ár og svo allt í einu birtast þeir aftur vilja banna ferðamennsku.“

Í nágrenni við pýramídana má sjá auglýsingaskilti og borða frá Al-Nur flokknum á víð og dreif.

Síðastliðinn föstudag, mótmæltu um það bil eitt þúsund starfsmenn í ferðaþjónustu landsins hugmyndum um „halal ferðaþjónustu“.

Margir verslunareigendur í Egyptalandi hafa þó meiri áhyggjur af öryggismálum en „halal ferðaþjónustu“.

Tahan, skartgripasali, segist vilja deila sögu og fegurð Egyptalands með ferðamönnum en hún hafi áhyggjur af öryggi þeirra. Hún segist ætla að kjósa Frelsis- og Réttlætisflokkinn, en hún telur að sá flokkur muni stuðla að auknu öryggi á götum landsins.

Mohammed, tekur undir orð Tahan. „Vegna þess óöryggis sem hér ríkir, þurfa ferðamenn alltaf að vera í fylgd öryggisvarða. Þeir fara beint úr rútunum að pýramídunum og taka sér ekki tíma til þess að kíkja inn í verslanir á leiðinni,“ segir Mohammed.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert