Grikkir sagðir horfa fram á mannúðarkreppu

Heimilislaus maður fyrir utan bankaútibú í Aþenu.
Heimilislaus maður fyrir utan bankaútibú í Aþenu. Reuters

Fátækt hefur aukist hratt í Grikklandi frá því efnahagskreppan hófst en sérfræðingar halda því nú fram að aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum séu að gera illt verra með því að auka atvinnuleysi og þar með fjölda þeirra sem eru fátækir eða jafnvel heimilislausir.

„Við höfum tekið eftir því að mun fleiri hafa heimsótt mötuneytið okkar upp á síðkastið,“ segir Chrysostomos Symeonidis, yfirmaður fátækrasjóðs biskupsdæmisins í Aþenu. „Við dreifum um 10 þúsund máltíðum á hverjum einasta degi og um það bil 250 þúsund máltíðir eru gefnar fátækum á landsvísu í hverri viku,“ bætti Symeonidis við.

Í viðtali við gríska dagblaðið Ethnos, varaði Symeonidis, ásamt embættismönnum og starfsmönnum góðgerðasamtaka, við því að Grikkland væri á barmi mannúðarkreppu enda sýndu opinber gögn að atvinnulausum hefði fjölgað um 320 þúsund manns á þessu ári.

George Kaminis, borgarstjóri Aþenu, sagði í viðtali við Ethnos að heimilislausum hefði fjölgað um 20% á sama tíma og súpueldhúsum fyrir heimilislausa í borginni hefði einungis fjölgað um 15%.

„Góðgerðarstarfsmenn rekast ekki lengur á hinn týpíska heimilisleysingja, þeir hitta fólk sem að öllum líkindum lifði fullkomlega eðlilegu lífi fyrir aðeins örfáum vikum,“ sagði Kaminis.

„Tölfræðin er ógnvekjandi,“ sagði Nikitas Kanakis, formaður Lækna án landamæra í Grikklandi. Kanakis bætti við „Um 20 prósent Grikkja lifa í öreigð. Fjöldi þeirra Grikkja sem reiða sig á súpueldhús og læknastöðvar fyrir fátæka hefur fjórfaldast, fjöldi heimilislausra Grikkja hefur þrefaldast ... Við erum að tala um upphaf mannúðarkreppu.“

Grísk verkalýðsfélög vara við því að atvinnuleysið í landinu muni aukast um 20% á næsta ári vegna kreppunnar og þess niðurskurðar umsvifum hins opinbera sem erlendir lánadrottnar, á borð við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, hafa gert kröfur um.

Ríkisstjórn Grikklands hefur lofað því að fækka opinberum starfsmönnum um 150 þúsund fyrir árið 2015, en aðeins pínulítill hluti þeirra sem munu missa störf sín eru á ellilífeyrisaldri.

„Það getur verið mjög erfitt fyrir ungt fólk að finna nýja vinnu, en ímyndið ykkur hversu stressandi atvinnuleit er fyrir einhvern á mínum aldri,“ sagði hinn sextugi George Barkouris í viðtali við Ethnos, en hann missti vinnuna sína rétt áður en komst á ellilífeyri. Barkouris bætir við „Allt þetta sýnir að fjölskylduformið eins og við þekktum það hér áður fyrr er að hverfa, þeir sem eru okkur næstir eru ekki til staðar þegar maður þarf mest á þeim að halda.“ Barkouris dvelur nú ásamt börnum sínum í athvarfi fyrir heimilislausa.

Um 4,4 milljónir Grikkja eru án atvinnu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert