Bandaríkin styrkja eldflaugavarnakerfi Ísrael

Radarstöð fyrir
Radarstöð fyrir "Iron Dome" eldflaugavarnarkerfið í útjaðri borgarinnar Ashkelon í Ísrael. Reuters

Ísraelska varnarmálaráðuneytið tilkynnti í dag að Bandaríkin hefðu samþykkt að veita Ísrael aukafjárveitingu sem nemur um 235 milljónum bandaríkjadollara, eða rétt tæpum 29 milljörðum íslenskra króna, til þess að fjármagna eldflaugavarnir Ísrael.

„Aðstoð bandaríska þingsins er viðbótarskref í átt að aukinni samvinnu á milli Ísraels og Bandaríkjanna á sviði varnarmála,“ sagði Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísrael, við fjölmiðla í dag.

Aukafjárveitingin bætist ofan á hina þriggja milljarða fjárveitingu sem Ísrael fær árlega frá Bandaríkjunum til þess að styrkja varnarmál þar í landi.

Í samræmi við 10 ára langan tvíhliðasamning, sem þjóðirnar tvær undirrituðu árið 2007, mun Ísrael nota alla fjárveitinguna til þess að kaupa hergögn frá Bandaríkjunum.

Í vor setti Ísrael upp hið svokallaða „Iron Dome“ eldflaugavarnakerfi, sem fjármagnað var af Bandaríkjunum í þeim tilgangi að vernda þau svæði í suðurhluta Ísrael sem verða gjarnan fyrir eldflaugaárásum frá Gazaströndinni. Þó svo að eldflaugavarnakerfið veiti þónokkra vernd, þá hefur því ekki tekist að granda öllum þeim eldlaugum sem skotið hefur verið á Ísrael.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert