Fótboltahöll hrundi til grunna

Mikill sjógangur var við Noregsstrendur vegna Dagmarar í nótt.
Mikill sjógangur var við Noregsstrendur vegna Dagmarar í nótt. Reuters

Stór svæði í Noregi eru illa leikin eftir óveðrið Dagmar, sem þar gerði strandhögg í gærkvöldi og í nótt. Engar fréttir hafa þó borist af mannskaða vegna óveðurs, og þakka Norðmenn það meðal annars því að varað var tímanlega við óveðrinu.

Fréttavefur VG segir frá því að Abrahallen, æfingahöll fótboltaliðsins Rosenborg í Þrándheimi, er í rúst eftir óveðrið, en vindurinn sprengdi húsið upp í nótt. Sjónarvottur segir frá því að mikill blossi hafi orðið, líklega þegar raflínur eða spennibúnaður við húsið fór í sundur. Fyrst rifnaði upp ein hliðin á húsinu og svo sprakk það upp og lagðist flatt niður.

Þetta staðfestir slökkviliðsstjórinn Stig Lunde. Abrahallen hrundi reyndar einnig árið 2009, en þá var það vegna mikils fannfergis ofan á þakinu, en ekki vegna vinds.

Tjón varð líka austan til í Noregi og meðal annars í Osló féllu tré. Til að mynda sýnir fréttavefur Aftenposten mynd frá Holmenkollen þar í borg, svo ekki verður um villst að þar var aftakaveður í nótt.

Veðurstofa Noregs þakkar það að enginn hefur farist í óveðrinu meðal annars að spáð var stormi strax að morgni Þorláksmessu. „Stormurinn árið 1992 kom mjög skyndilega og fólk hafði ekki sömu aðferðir til að segja fyrir um það. Við erum betri í að spá um svona lagað í dag en þá,“ segir veðurstofustjórinn Øyvind Johnsen við VG.

Mörg hundruð útköll í nótt

Í Sunnmæri fékk lögregla um 150 útköll vegna óveðursins og í Mæri og Romsdal voru 120 útköll. Í öllum fylkjunum sem liggja við ströndina hafa borist fréttir af föllnum trjám sem loka vegum og talsvert af húsum hefur eyðilagst þegar tré hafa fallið á þau. Sömuleiðis hjólhýsi og slíkt, sem hefur fokið eða orðið undir trjám.

Þá hafa bátar sums staðar fokið talsverðan spöl upp á land, jafnvel frekar stórar skútur.

Í einu tilfelli voru nokkur hjólhýsi á tjaldstæði í Loen, en fimm stykki fuku upp á þjóðveg og brotnuðu þar. Þurfti þá einfaldlega að ryðja veginn eins og um snjómokstur væri að ræða til að opna hann.

Víða hefur einnig orðið rafmagnslaust, sérstaklega í eyjum úti fyrir ströndinni, og sums staðar hefur sjór flætt inn á land og ofan í kjallara í húsum, meðal annars í stóran bílakjallara í Þrándheimi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert