Írar undirbúa sig fyrir þjóðaratkvæði

Reuters

Írsk stjórnvöld hafa sett af stað undirbúning fyrir mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjan sáttmála á vettvangi Evrópusambandsins um aukinn samruna og aðhald í efnahagsmálum í því skyni að reyna að bjarga evrusvæðinu sem komist var að samkomulagi um á fundi leiðtogaráðs sambandsins fyrr í þessum mánuði. Fréttavefurinn Euobserver.com segir frá þessu í dag.

Samkvæmt írsku stjórnarskránni ber að halda þjóðaratkvæði á Írlandi um ákvarðanir sem fela í sér framsal á fullveldi landsins. Undirbúningurinn felst í því að virkja sérstakt ráð sem tekur til starfa þegar framundan er þjóðaratkvæðagreiðsla og er ætlað að tryggja að almenningur fái hlutlausar upplýsingar um það mál sem kosið er um hverju sinni.

Öll ríki Evrópusambandsins tóku jákvætt í nýjan sáttmála á vettvangi sambandsins að Bretum undanskildum. Nokkur önnur ríki gerðu þó annaðhvort þann fyrirvara að þau þyrftu að ráðfæra sig við þjóðþing sín áður en þau gætu samþykkt sáttmálanna endanlega eða að þau kynnu að þurfa að halda þjóðaratkvæði um hann.

Ekki hefur enn verið gengið endanlega frá innihaldi hins nýja sáttmála en búist er við að það verði gert og hann kynntur leiðtogum ríkja Evrópusambandsins á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert