Fleiri fjölburafóstrum eytt

Verðandi mæður, sem ganga með fleiri en eitt barn, láta …
Verðandi mæður, sem ganga með fleiri en eitt barn, láta sumar eyða fóstrum svo þær fæði aðeins eitt barnanna. Myndin er úr myndasafni. mbl.is

Meira en 100 ófæddum börnum var eytt í fyrra í Bretlandi úr kviði verðandi mæðra sem gengu með fleiri en eitt barn en vildu ekki fæða þau öll. Fréttavefur Daily Telegraph greinir frá því að konurnar hafi ýmist átt von á tvíburum, þríburum og eða jafnvel fjórburum.

Fréttin er byggð á opinberum gögnum sem The Telegraph hefur undir höndum. Þar kemur m.a. fram að það hafi færst mjög í vöxt á undanförnum árum að konur sem gengu með fleiri en eitt fóstur hafi látið eyða einu fóstri eða fleirum á meðgöngunni og fætt svo a.m.k. eitt barn í fyllingu tímans.

Sérfræðingar segja að fjölgun svonefndra „valkvæðra fækkana“ tengist einkum fleiri tilvikum fleirbura í kjölfar tæknifrjóvgunar. Talið er líklegt að þessar upplýsingar veki að nýju umræður um þá aðferð tæknifrjóvgunarstofa að setja marga fósturvísa í móðurlíf kvenna til þess að auka líkurnar á að þær verði barnshafandi.

Opinberar tölur, sem fengust vegna upplýsingaskyldu stjórnvalda, sýndu að 59 verðandi mæður höfðu látið eyða að minnsta kosti einu fóstri en fætt eitt barn árið 2006. Árið 2010 var fjöldi kvenna sem gekkst undir hliðstæða fóstureyðingu orðinn 85. Í fyrra var 101 fóstri eytt með þessum hætti því fleiri en einu fóstri var eytt hjá sumum kvennanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert