Kim notar þjóðina sem mennskan skjöld

Kim Jong-un
Kim Jong-un Reuters

Yfirvöld Norður-Kóreu byrjuðu nýja árið á því að hvetja hermenn sína til þess að ,,verða mennskir rifflar og sprengjur” til þess að verja yfirburðaleiðtogann Kim Jong-un. Þau hétu því einnig að gera velmegunarátak.

„Allur herinn ætti að leggja traust sitt að fullu á og fylgja Kim Jong-un og verða mennskir rifflar og sprengjur til þess að verja hann til síðasta manns,” stóð í ritstjórnargreinum í opinberum dagblöðum landsins í morgun.

Ríkisfréttastöðin KCNA sagði frá því að Kim hefði farið í heimsókn til skriðdrekaherdeildar í tilefni dagsins, ásamt hinum áhrifamikla frænda sínum, Jang Song-thaek og hershöfðingjanum Ri Yong-Ho og fleiri háttsettum mönnum.

„Allur flokkurinn, allur herinn og öll þjóðin ættu að búa yfir sterkri sannfæringu fyrir því að þau munu verða mennskur varnarmúr og mennskir skildir í vörn fyrir Kim Jong-un til dauðadags og fylgispekt þeirra við hinn mikla flokk mun vara að eilífu,” stóð í ritstjórnargreinunum.

KCNA sagði einnig frá því í dag að Hu Jintao, forseti Kína, hefði sent Kim hamingjuóskir í tilefni af því að hann væri orðinn yfirmaður herafla Norður-Kóreu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert