Sarkozy boðar aðgerðir

Nicolas Sarkozy hélt nýársávarp þar sem hann boðaði meðal annars …
Nicolas Sarkozy hélt nýársávarp þar sem hann boðaði meðal annars aðgerðir gegn atvinnuleysi. Reuters

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, varar landsmenn sína við því að framtíð Frakklands gæti oltið á því hversu vel tekst að halda jafnvægi í þjóðarbúskap á árinu 2012. Hann segist munu taka á atvinnuleysi á árinu.

Frakkar munu ganga að kjörborðinu í ár og kjósa forseta. Helsti keppinautur Sarkozy um embættið, Francois Hollande, sem er frambjóðandi Sósíalistaflokksins, hefur nú forskot samkvæmt skoðanakönnunum.

Í nýársávarpi sínu talaði Sarkozy um þá reynslu sem hann hefði af því að fást við skuldavanda evruríkjanna. „Að komast út úr kreppunni, að byggja upp hagvöxt; að búa til nýja Evrópu; þetta er meðal þeirra áskorana sem bíða okkar.“

„Árið 2012 verður áhættusamt, en jafnframt fullt af allskyns tækifærum. Fullt af vonum, ef við vitum hvernig við eigum að mæta þessum áskorunum. En einnig fullt af hættum, ef við aðhöfumst ekki neitt,“ sagði Sarkozy í ávarpi sínu.

Hann boðaði jafnframt víðtækar aðgerðir gegn atvinnuleysi og sagði að fjármálageirinn ætti ekki að marka stefnu Frakklands.

Hollande hélt einnig áramótaávarp og gagnrýndi þar vinnubrögð Sarkozys varðandi efnahagsástandið. Hann hvatti fólk til að kjósa sig og sagði að árið 2012 væri árið þar sem möguleiki væri á að kjósa ný örlög Frakklandi til handa.

Fyrsta umferð forsetakosninganna verður í apríl og önnur umferð í maí. Þingkosningar verða síðan haldnar í júní.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert