Grikkland yfirgefur evruna án aðstoðar

Frá Aþenu í Grikklandi.
Frá Aþenu í Grikklandi. Reuters

Grikkland neyðist til þess að yfirgefa evrusvæðið fái það ekki nýjan björgunarpakka upp á 130 milljarða evra. Þetta sagði talsmaður grísku ríkisstjórnarinnar, Pantelis Kapsis, í dag samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

„Samkomulagið um björgunarpakkann verður að undirrita, annars lendum við utan við markaðina, utan við evruna,“ sagði Kepsis og bætti því við að þá yrði staðan landsins miklu verri en hún er í dag, en grískir ráðamenn hafa lagt áherslu á það undanfarið að ef sjálfstæður grískur gjaldmiðill yrði tekinn upp á ný þýddi það nánast helvíti á jörðu fyrir grískt efnahagslíf.

Grísk stjórnvöld keppa nú við tímann að ná samkomulagi við Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og einkaaðila sem eiga grísk ríkisskuldabréf um útfærslu á nýrri björgunaráætlun áður en Grikkir þurfa að endurfjármagna stór lán í mars næstkomandi. Stefnt er að því að ná samkomulagi um nýjan björgunarpakka um miðjan þennan mánuð.

Samkvæmt skoðanakönnunum vill meirihluti grískra kjósenda að ráðamenn Grikklands geri allt til þess að halda landinu á evrusvæðinu jafnvel þótt þeir séu ósáttir við þær harkalegu aðhaldsaðgerðir sem grípa hefur þurft til í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert