Líf í tuskunum á túnfiskuppboði

Nýtt met var sett á túnfiskuppboði á Tsukiji-fiskmarkaðnum í Tókýó í morgun þegar 269 kílóa þungur bláuggatúnfiskur seldist fyrir 56,49 milljónir jena, jafnvirði 90 milljóna króna.

Ekki hefur verið greitt hærra verð fyrir einn fisk frá því byrjað var að halda skrár um uppboðin árið 1999. Gamla metið var sett á síðasta ári, 32,49 milljónir jena fyrir einn fisk.

Kiyoshi Kimura, sem hreppti túnfiskinn, rekur vinsæla sushi-veitingastaðakeðju í Japan, Sushi-Zanmai. 

„Japan hefur þurft að þola margt á síðasta ári vegna náttúruhamfaranna,“ sagði Kimura við AP fréttastofuna. „Japan þarf að standast álagið. Ég gerði mitt besta og keypti á endanum dýrasta fiskinn.“  

Áætlað er að hægt sé að fá 10 þúsund sushi-skammta úr fiskinum. Þegar var byrjað að selja sushi-skammta úr fiskinum á Sushi-Zanmai veitingastað á Tsukiji-markaðnum fyrir 418 jen, jafnvirði 700 króna hvern. Miðað við kaupverðið þyrfti hver skammtur úr fiskinum hins vegar að kosta jafnvirði um 8 þúsund króna.

Mikil eftirvænting ríkir jafnan á fyrsta túnfiskuppboði ársins á Tsukiji-markaðnum og það er talið gæfumerki að hreppa fyrsta fiskinn sem boðinn er upp.

Japanar neyta um 80% af öllum bláuggatúnfiski, sem veiðist í Atlantshafi og Kyrrahafi en hann er mjög eftirsótt vara þar í landi. Vaxandi alþjóðlegur þrýstingur er hins vegar á að mjög verði dregið úr veiðum á þessum fiski eða þær jafnvel bannaðar vegna þess að stofninn á undir högg að sækja.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert