Réðst nakinn á lestarfarþega

Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Reuters

Þrítugur Svíi hefur verið dæmdur í tæplega tveggja ára fangelsi fyrir að hafa ráðist nakinn á lestarfarþega í nóvember sl. Maðurinn var undir áhrifum fíkniefna.

Árásin átti sér stað í lest sem ók á milli Gautaborgar og Örebro. Að sögn lögreglu hafði maðurinn verið að reykja hass og þegar hann var í lestinni fór hann að hegða sér afar undarlega.

Eftir að hafa haft í hótunum við lestarstjórann afklæddist hann. Nakinn gekk maðurinn um lestina og spurði fólk hvort það vildi stunda samfarir. Þetta kemur fram í Skövde Nyheter.

Þá sparkaði hann nokkrum sinnum í magann á konu sem bað hann að fara aftur í föt. Þá reyndi hann að þvinga aðra konu til munnmaka.

Við réttarhöldin kom fram að maðurinn hefði haldið því fram að hann væri stríðsmaður sem ætlaði að nauðga og myrða alla um borð. Þá hótaði hann einnig að myrða alla þá sem hugðust yfirgefa lestina. Hann hótaði m.a. að skera einn farþega á háls.

Meirihluti farþeganna virti hótunina hins vegar að vettugi og fór úr lestinni á næstu stöð.

Árásarmaðurinn hafði króað konu af í horni lestarinnar þegar lögreglumenn komu á vettvang. Þegar maðurinn varð var við þá hótaði hann að drepa konuna. Lögreglan beitti piparúða til að yfirbuga manninn sem streittist á móti.

Dómstóllinn dæmdi manninn í 22 mánaða fangelsi og til að greiða þremur einstaklingum sem hann réðst á og hafði í hótunum við samtals um 54.000 sænskar krónur í skaðabætur, sem samsvarar um 970.000 íslenskum krónum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert