Svíþjóð tók þátt í þrælasölu ottómanveldisins

Nýleg sagnfræðirannsókn bendir til þess að sænsk skip hafi tekið …
Nýleg sagnfræðirannsókn bendir til þess að sænsk skip hafi tekið virkan þátt í því að flytja kynlífsþræla frá Afríku til Ottómanveldisins. Mynd úr safni. Reuters

Sænsk skip voru notuð í Miðjarðarhafinu til þess að flytja þræla á 18. öldinni en hátt í þrír af hverjum fjórum þrælum sem skipin fluttu voru konur sem sagnfræðingar telja að hafi verið seldar í kynlífsþrælkun.

Joachim Östlund, sagnfræðingur við sagnfræðideild Háskólans í Lundi í Svíþjóð, uppgötvaði nýlega löngu gleymd skráningarvottorð skipa sem geymd voru í skjalasafni í Stokkhólmi. Gögnin virðast benda til þess að Svíþjóð hafi tekið virkan þátt í þrælasölu á 18. öld. „Það verður að endurskrifa sögu Svíþjóðar,“ sagði Östlund í viðtali við sænska fjölmiðilinn The Local og bætti við: „Svíþjóð tók virkan þátt í sölu ottómanveldisins á þrælum frá Afríku sunnan Sahara - og þetta eru algjörlega nýjar upplýsingar.“

Samkvæmt þeim skráningarvottorðum sem Östlund uppgötvaði var farmur skipanna sem um ræðir skráður sem „negrar“.

Að sögn Östlunds voru 75% af þrælunum um borð konur. „Þetta voru konur sem voru notaðar bæði sem þjónustustúlkur og sem hjákonur, gjarnan hvort tveggja á sama tíma. Þær áttu yfirleitt stutta ævi, en rannsóknir sýna að þær hafi lifað að meðaltali í sjö ár eftir að hafa komið til ottómanveldisins, en einmitt þetta hélt þrælasölunni á milli Afríku og Trípólí á floti,“ sagði Östlund.

Ekki eru allir á eitt sáttir með rannsókn Östlund og hafa sumir samlandar hans ásakað hann um að draga sögu landsins niður í svaðið.

Nánar má lesa um málið á vef sænska fjölmiðilsins The Local.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert