Setja ný lög um fóstureyðingar

Stjórnvöld á Spáni ætla að herða löggjöfina um fóstureyðingar.
Stjórnvöld á Spáni ætla að herða löggjöfina um fóstureyðingar. Arnaldur Halldórsson

Stjórnvöld á Spáni hyggjast herða löggjöf um fóstureyðingar og m.a. skylda 16 og 17 ára stúlkur til þess að fá samþykki foreldra sinna áður en þær gangast undir aðgerðina. Dómsmálaráðherra landsins, Alberto Ruiz-Gallardon, tilkynnti þetta í dag en um er að ræða kúvendingu frá lögum sem ríkisstjórn sósíalista samþykkti árið 2010.

Gallardon tilheyrir Lýðflokknum, sem komst til valda í kosningum í nóvember síðastliðnum, en flokkurinn var mjög á móti lögunum sem sett voru árið 2010.

Í þeim lögum segir að konu sé frjálst að fara í fóstureyðingu sé hún ekki gengin með lengur en 14 vikur, eða 22 vikur sé velferð hennar í hættu eða fóstrið alvarlega fatlað. Áður voru sömu ástæður skilyrði fóstureyðingar yfir höfuð eða ef barnið kom undir eftir nauðgun.

Lögin frá 2010 leyfðu að stúlkur, 16 og 17 ára, gengust undir fóstureyðingu án samþykkis foreldra sinna, ef þær gátu sýnt fram á að þær yrðu beittar heimilisofbeldi ef þær segðu foreldrum sínum frá þunguninni.

Gallardon sagði fyrir þingnefnd í dag að lögin frá 2010 hefðu verið samþykkt án þess að þau hefðu hlotið víðtækan hljómgrunn.

Í stefnuskrá flokks hans var því m.a. lofað að núgildandi lögum um fóstureyðingar yrði breytt, til þess að vernda réttinn til lífs og stúlkur undir lögaldri.

Ýmsir hópar hafa mótmælt nýja frumvarpinu og segja m.a. að fóstureyðingum ungra kvenna hafi alls ekki fjölgað og að lögin gætu orðið til þess að konur grípi til örþrifaráða til að binda enda á þunganir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert