25 aðildarríki taka þátt í efnahagssáttmála

José Manuel Barroso (v), forseti framkvæmdstjórnar ESB og Herman van …
José Manuel Barroso (v), forseti framkvæmdstjórnar ESB og Herman van Rompuy (h), forseti leiðtogaráðs ESB á leiðtogafundinum í Brussel í dag. Reuters

Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, tilkynnti í dag að öll aðildarríki ESB, að Bretlandi og Tékklandi undanskildum, hefðu samþykkt á leiðtogafundinum í Brussel í dag að undirrita nýjan efnahagssáttmála sem á að koma í veg fyrir skuldakreppur í framtíðinni.

„25 aðildarríki ætla að taka þátt og munu undirrita efnahagssáttmálann,“ sagði Van Rompuy í færslu Twitter-síðu sinni.

Bresk stjórnvöld höfðu áður gefið það út að þau myndu ekki skrifa undir sáttmálann en stjórnvöld í Tékklandi hafa gefið til kynna að þau þurfi fyrst að afla samþykkis heima fyrir áður en þau geta undirritað sáttmálann.

Sáttmálinn mun fela það í sér að aðildarríkin þurfa að festa í lög ákvæði um hallalaus fjárlög. Þau aðildarríki sem brjóta gegn reglum sáttmálans um fjárlagahalla munu nær sjálfkrafa verða beitt viðurlögum.

Sátt náðist í málinu eftir að Frakkar og Pólverjar náðu að leysa deilu sem spratt upp vegna kröfu pólskra stjórnvalda þess efnis að leiðtogar þeirra aðildarríkja ESB sem ekki hafa núþegar tekið upp evru fái að vera viðstaddir leiðtogafundi evruríkjanna.

Sáttmálinn verður formlega undirritaður í byrjun marsmánaðar og mun taka gildi um leið og að minnsta kosti 12 aðildarríki hafa fullgilt hann.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, lýsti í dag yfir undrun sinni á u-beygju tékkneskra stjórnvalda í málinu en þau studdu hugmyndir um efnahagssáttmála á leiðtogafundinum í desember síðastliðnum. „Hvernig stendur á því að eitthvað sem var ásættanlegt í desember er ekki lengur ásættanlegt í dag?“ Sagði Sarkozy á blaðamannafundi sem haldinn var að loknum leiðtogafundinum í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert