Vilja öflugri umhverfisstofnun

Hlýnun jarðar er eitt af þeim vandamálum sem steðjar að …
Hlýnun jarðar er eitt af þeim vandamálum sem steðjar að heiminum. Reuter

Fleiri en hundrað lönd hafa nú lýst yfir stuðningi yfir tillögu Frakka um að komið verði á laggirnar alþjóðlegri umhverfismálastofnun á 20 ára afmæli Ríófundarins, sem haldið verður 20.-22. júní næstkomandi.

Hugmyndin er að búa til stærri og áhrifameiri útgáfu af Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna en gagnrýnendur hennar segja henni hafa mistekist að takast á við þann síversnandi umhverfisvanda sem steðjar að heiminum.

Umhverfisráðherra Frakka, Nathalie Kosciusko-Morizet, sagði á ráðstefnu í dag að sáttmáli um stofnunina yrði lykillinn að árangursríkri Ríófundar-samkomu í júní en tilgangur hennar verður m.a. að leggja mat á þróunina þau 20 ár sem liðin eru frá því að Ríófundurinn var haldinn.

Ráðherrann sagði einnig að samkoman yrði vettvangur til þess að endurhugsa hagkerfi heimsins, þar sem umhverfis- og félagsmál yrðu sett í samhengi við leitina eftir ágóða.

„Sá nýi kapítalismi sem mun rísa úr öskustó efnahagskreppunnar verður að vera umhverfisvænn, annars verður ekkert nýtt við hann,“ sagði hún.

Það voru Sameinuðu þjóðirnar sem stóðu fyrir Ríófundinum í Rio de Janero árið 1992 en þar var m.a. gerður rammasamningur um loftslagsbreytingar og samningur um líffræðilega fjölbreytni. Fundurinn samþykkti einnig Ríóyfirlýsinguna, sem hefur að geyma 27 meginreglur í umhverfismálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert