Myrti stuðningsfulltrúa í Danmörku

Þessi 22 grænlensku börn voru árið 1951 flutt frá Grænlandi ...
Þessi 22 grænlensku börn voru árið 1951 flutt frá Grænlandi til Danmörkur. Í þessum hópi var m.a. Ane Sofie Heilmann.

Morð á 46 ára gömlum stuðningsfulltrúa í Danmörku hefur vakið mikla athygli. Ástæðan er m.a. sú að morðinginn er sonur grænlenskrar konu sem var á unga aldri flutt, ásamt 21 barni, frá heimili sínu í Grænlandi til Danmerkur.

Lík Judy Meiniche Simonsen, 46 ára stuðningsfulltrúi, fannst við hús úti í skógi skammt frá Viborg í Danmörku í gær. Hún vann á heimili fyrir fólk með geðræn vandamál. Við rannsókn málsins kom fram að silfurlitaðri Skoda-bifreið hafði verið stolið í nágrenninu. Lögreglan lét því lýsa eftir bílnum.

Lögreglumenn komu auga á bílinn í morgun og reyndu að stöðva hann. Bílstjórinn ók hins vegar áfram og endaði á því að aka á tré. Ökumaðurinn var 39 ára gamall maður, Kristian Heilmann. Hann var fluttur slasaður á sjúkrahús. Hann er grunaður um að hafa myrt Simonsen. Ekki hefur verið upplýst hvernig hún var myrt eða hvers vegna.

Dapurleg fjölskyldusaga

Fjölmiðlar í Danmörku og á Grænlandi hafa í dag fjallað um dapurlega fjölskyldusögu Heilmanns.

Ane Sofie, móðir Kristians Heilmanns, var í hópi 22 grænlenskra barna sem voru árið 1951 flutt til Danmerkur. Með þessari ákvörðun átti að gefa börnunum tækifæri til að ganga í góða skóla og kynnast danskri menningu. 

Ekki tókst í öllum tilvikum vel til við uppeldi þessara barna. Ane Sofie Heilmann sneri aftur til Grænlands, en festi þar ekki rætur og fór aftur til Danmerkur. Hún eignaðist þar fimm börn með fimm mönnum. Börnunum var komið fyrir á munaðarleysingjahælum og í fóstri. Ane Sofie var myrt í Danmörku árið 1974, en hún var þá þrítug. Kristian fékk ekki upplýsingar um örlög móður sinnar fyrr en löngu síðar. Hann komst seint og um síðir í samband við hálfsystur sína.

Fram kemur í danska blaðinu Ekstra Bladet að Kristian Heilmann hafi sagt í samtali við systur sína að hann telji að morðið á móður sinni hafi ýtt sér út á glæpabraut.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Skoðanakannanir

[ Nánar | Allar kannanir í CSV-skrá ]

Frá Sýrlandi til Evrópu - Greinaflokkur

Mitsubishi Outlander 2007 dekurbíll til sölu
1 eigandi frá upphafi, ekinn aðeins 75.000 km. 5 gíra, bensín, 4WD, ný dekk, nýj...
Nýr og ónotaður Infrarauður Saunaklefi á 234.000
- hiti 30-65 C - 2manna klefi - Interior Wood: Hemlock - Exterior Wood: Hemlo...
 
Uppboð á ökutökjum
Uppboð
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra Haf...
Aðalskipulag
Tilkynningar
Lýsing breytingar Aðalski...
Vélavörður
Sjávarútvegur
Vélavörður óskast! Vélavörð vantar á ...
Eldri borgarar
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9 og s...