Verkalýðsfélög boða verkföll

Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands, kemur til fundar við lánadrottna í …
Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands, kemur til fundar við lánadrottna í dag. REUTERS

Forystumenn Grikklands náðu á síðustu mínútu samkomulagi um ríkisfjármálin í dag sem auðveldar fjármálaráðherrum evruríkjanna að klára að ná niðurstöðu í björgunarpakkanum svokallaða, en ráðherrarnir funda í Brussel í dag. Verkalýðsfélög í Grikklandi mótmæla þó og hafa boðað allsherjarverkföll.

Eins og greint var frá áðan í frétt á mbl.is er um 130 milljarða björgunarpakka að ræða sem er ætlað að koma jafnvægi á innan evruríkjanna og binda enda á þá kreppu sem þau hafa þurft að glíma við.

Þá er einnig á lokastigi samkomulag við bankastofnanir um niðurfærslu á skuldum Grikkja, eftir því sem fréttastofan AFP hefur eftir embættismanni hjá Evrópusambandinu.

Samsteypustjórnin í Grikklandi hefur átt í miklum erfiðleikum með að ná samstöðu um niðurskurðinn, en hann felur í sér m.a. 650 miljón evra niðurskurð á eftirlaunasjóðum. Náði ríkisstjórnin ekki samstöðu fyrr en á síðustu stundu eftir langa fundi til að leita leiða að því að brúa bilið í ríkisfjármálunum.

Á meðan bárust skilaboð frá Brussel um að það yrði að nást að brúa bilið með einum eða öðrum hætti.

Mario Draghi, yfirmaður í Evrópska seðlabankanum, sagði blaðamönnum í Frankfurt að hann hefði fengið símtal frá gríska forsætisráðherranum, Lucas Papademos, nokkrum mínútum áður. „Hann sagði mér að þeir hefðu náð samkomulagi og að það nyti stuðnings allra stóru flokkanna,“ er haft eftir Draghi.

Þá komu þau skilaboð frá embættismanni hjá Evrópusambandinu að það væri samstaða um það á meðal lánardrottna að fella niður grískar skuldir. „Stærsta skuldaniðurfærsla sem fram hefur farið,“ er haft eftir embættismanninum.

Hópur lánardrottna hittist á fundi í París í dag til að ræða útfærslur á þessari skuldaniðurfærslu, en hún mun spara Grikkjum allt að 100 milljarða evra, eftir því sem talsmaður hópsins greindi frá í dag.

Skuldir Grikklands eru nú um 350 milljarðar evra sem er um 160% af vergri landsframleiðslu. Hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krafist þess að þessu hlutfalli verði náð niður í 120% fyrir árið 2020, eigi frekari aðstoð að fara fram.

Samkomulagið felur í sér að útgefin skuldabréf að nafnvirði 200 milljarðar evra verði niðurfærð um helming, en útlit er þó fyrir að lánardrottnarnir geti tapað allt að 70% þar sem búist er við að eftirstöðvarnar fari á 30 ára skuldabréf með lægri vöxtum.

Þessar aðgerðir munu taka nokkrar vikur í framkvæmd, en áhyggjur eru af því að Grikkland muni hafa til ráðstöfunar 14,5 milljarða evra til greiðslu á gjalddaga sem ráðgerður er 20. mars. Náist það ekki gæti það haft víðtæk áhrif á evrusamstarfið og þær aðgerðir sem þjóðirnar hafa verið að fara í að undanförnu til að koma þar á jafnvægi.

Verkföll boðuð á Grikklandi

Verkalýðsfélögin hafa boðað tveggja daga allsherjarverkfall á morgun og laugardag til að mótmæla launa- og eftirlauna niðurskurðaraðgerðum stjórnvalda.

„Við höfnum algjörlega þessum ramma sem settur hefur verið og mun valda enn meiri skaða og gjaldþroti samfélagsins og hagkerfisins,“ sagði einn verkalýðsleiðtoginn.

Samkvæmt fréttum úr grískum fjölmiðlum munu aðgerðir ríkisstjórnarinnar fela í sér m.a. um 22% lækkun lágmarkslauna, lækkun launa og eftirlauna auk þess sem opinberum störfum verður fækkað um 15.000 með tilheyrandi uppsögnum.

Mikil óánægja er með þessa ráðstöfun þar sem atvinnuleysið mælist nú þegar um 20,9% sem þýðir að um ein milljón manna gengur um atvinnulaus.

Efnahagsráðherrar evruríkjanna samþykktu niðurskurðarpakkann á fundi sínum síðdegis í dag, en tillögurnar verða lagðar fyrir gríska þingið á morgun og greidd atkvæði um þær á sunnudag.

Búist er við því að ríkisstjórnin njóti stuðnings um 255 af 300 þingmönnum á gríska þinginu, en málið er mjög stórt og mun án efa hafa sín áhrif í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar sem ráðgerðar eru í apríl.

Hægrileiðtoginn Georgios Karatzaferis gagnrýndi í dag þá pressu sem er á grísku ríkisstjórnina um að vinna að enn meiri sársaukafullum niðurskurði.

„Ég gerði í upphafi fundar mjög skýra grein fyrir þeirri afstöðu minni að ég get ekki á einum klukkutíma skrifað undir áætlanir sem munu hafa áhrif í þessu landi næstu 40-50 árin,“ er haft eftir Karatzaferis í dag.

Evruríkin hafa síðan í október reynt að ná samkomulagi um …
Evruríkin hafa síðan í október reynt að ná samkomulagi um björgunarpakka Grikklands til að vinna að björgun evrunnar. REUTERS
Samningamenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins koma af fundi með forsætisráðherra Grikklands í dag.
Samningamenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins koma af fundi með forsætisráðherra Grikklands í dag. REUTERS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert