ESB þróast áfram þrátt fyrir krísuna

Forseti framkvæmdastjórnar ESB, José Manuel Barroso, Herman van Rompuy, forseti …
Forseti framkvæmdastjórnar ESB, José Manuel Barroso, Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, og Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, eftir fundinn í gær. Reuters

Efnahagskrísan á evrusvæðinu mun ekki koma í veg fyrir áframhaldandi þróun Evrópusambandsins og að henni lokinni verður sambandið endanlega að sameinað pólitískt. Þetta kom fram í máli forseta framkvæmdastjórnar ESB, José Manuel Barroso, í viðtali í kínversku sjónvarpi eftir fund með forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, í Peking í gær. Fréttavefurinn Euobserver.com greinir frá þessu.

Barroso gerði lítið úr mótmælum og verkföllum í einstökum evruríkjum vegna efnahagsástandsins og sagði að það væri réttur fólks að mótmæla í opnum samfélögum. Hann lagði hins vegar áherslu á að efnahagskrísan hefði leitt til aukins samruna innan ESB og vísaði til nýs sáttmála ríkja sambandsins utan Bretlands um aukinn efnahagssamruna.

Tilgangurinn með ferð Barroso til Peking ásamt Herman van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB, var að reyna að fá Kínverja til þess að leggja fram meira fjármagn til þess að reyna að bjarga evrusvæðinu. Meðal þess sem þeir opnuðu á var að viðurkenna Kína sem markaðshagkerfi sem ESB hefur ekki viljað gera til þessa en það myndi gera Kínverjum auðveldara með að selja vörur sínar á evrópskum mörkuðum.

Wen sagði Kínverja reiðubúna að taka aukinn þátt í að reyna að bjarga evrusvæðinu og vinna með ESB að því markmiði en gaf engin ákveðin loforð í þeim efnum. Einnig var rætt á fundinum um stöðu mála í Sýrlandi og Íran og gagnrýndi Wen ESB harðlega fyrir stefnu sambandsins gagnvart ríkjunum tveimur.

Lítið mun hins vegar hafa verið rætt um mannréttindamál á fundi leiðtoganna samkvæmt fréttinni og þannig ekkert minnst á málefni Tíbets og framgöngu Kínverja gagnvart íbúum landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert