Skotárásin ófyrirgefanleg

Bandarískur hermaður í Afganistan í dag.
Bandarískur hermaður í Afganistan í dag. Reuters

Forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, hefur verið greint ítarlega frá skotárásinni sem átti sér stað í Afganistan í dag. Bandarískur hermaður skaut á óbreytta borgara fyrir utan herstöð sína og féllu hið minnsta sextán í árásinni. Þar af níu börn og þrjár konur.

Hamid Karzai, forseti Afganistans, hefur lýst því yfir að atburðurinn sé ófyrirgefanlegur og að hermaðurinn hafi m.a. ruðst inn á heimili fólks og hafið skothríð.

„Við höfum miklar áhyggjur af fréttum sem berast af atvikinu og fylgjumst grannt með því,“ segir talsmaður Hvíta hússins í samtali við blaðamenn fyrir stundu.

Þá hefur NATO þegar beðist afsökunar á skotárásinni og sagt hermanninn hafa verið einan að verki. Skotárásin hafi á engan hátt tengst verkefnum alþjóðaliðsins í Afganistan.

Bandaríski hershöfðinginn John Allen, sem einnig er yfirmaður herliðs NATO í Afganistan, hefur heitið því sem hann kallar „snögga og ítarlega“ rannsókn á skotárásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert