Talið að kosið verði í lok maí

Írski fáninn. Úr myndasafni.
Írski fáninn. Úr myndasafni. Reuters

Talið er að fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla um nýjan sáttmála á vettvangi Evrópusambandsins, um aukinn samruna í efnahagsmálum, fari fram 24. og 25. maí næstkomandi. Fréttavefur írska dagblaðsins Irish Times greinir frá þessu í dag.

Stjórnvöld á Írlandi hafa ekki enn gefið það út opinberlega hvenær þjóðaratkvæðið fari fram en í fréttinni kemur fram að forsætisráðherra landsins, Enda Kenny, hafi sagt í síðustu viku að hann vildi að kosningin færi fram í lok maímánaðar.

Ekki liggur heldur fyrir hvernig spurningin verður orðuð sem írskir kjósendur verða spurðir að en Kenny hefur gefið það út að hann telji þjóðaratkvæðið muni snúast um áframhaldandi veru Írlands á evrusvæðinu.

Írland er eina landið þar sem því hefur verið lýst yfir að fram fari þjóðaratkvæði um sáttmálann en írskum stjórnvöldum er það skylt samkvæmt írsku stjórnarskránni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert