Tölvupóstar Assads birtir

Sýrlensku forsetahjónin Bashar og Asma Al-Assad.
Sýrlensku forsetahjónin Bashar og Asma Al-Assad. AP

Sýrlenska stjórnin leitaði ráða frá Íran um hvernig ætti að kveða niður mótmælin í landinu. Þetta kemur fram í tölvupóstum Bashar Al-Assad Sýrlandsforseta og eiginkonu hans Asma, sem birtir hafa verið í breska blaðinu The Guardian. Þar koma einnig fram lýsingar á glæstum lífsstíl hjónanna.

Blaðið segir að erfitt sé að útiloka að um fölsuð  gögn sé að ræða, en segist hafa gert allar hugsanlegar ráðstafanir til að sannreyna gildi þeirra. Tölvupóstarnir bárust blaðinu fyrir tilstuðlan uppreisnarmanna í Sýrlandi.

Um er að ræða gögn úr einkapósthólfum hjónanna og eru þau birt á vefsíðu The Guardian. Þar kemur meðal annars fram að Assad þáði ráðleggingar frá írönskum stjórnvöldum í nokkur skipti um hvernig fást ætti við uppreisnina í landinu.

Þar kemur einnig fram að fjölmiðlaráðgjafi Assads ráðlagðii honum að nota „kraftmikið og ofbeldisfullt“ orðfæri til þess að lýsa yfir ánægju sinni með stuðning vinveittra ríkja og að leka meiri upplýsingum sem varða herafla Sýrlands í því skyni að draga móðinn úr uppreisnarmönnum.

Í skilaboðum frá Khaled al-Ahmed, sem talinn er vera ráðgjafi Assads varðandi aðgerðir í borgunum Homs og Idlib, er forsetinn hvattur til þess að herða öryggisráðstafanir í því skyni að herða tök ríkisins. Hann varar Assad við því að evrópskir blaða- og fréttamenn hafi komist inn í landið með því að fara yfir landamæri þess að Líbanon.

Sumir tölvupóstanna gefa innsýn inn í óhóflegan lífsstíl forsetahjónanna. Til dæmis kemur fram í tölvupóstsamskiptum á milli þeirra tveggja að forsetafrúin eyddi þúsundum Bandaríkjadollara í kertastjaka og ljósakrónur í netverslun. Annar tölvupóstur gefur til kynna tónlistarsmekk Assads forseta, en þar kemur fram að hann hafi halað niður tónlist bresku hljómsveitarinnar Right Said Fred og vinsællar raftónlistarhljómsveitar frá níunda áratugnum, New Order.

Frétt The Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert