Spilling kostar Þjóðverja 250 milljarða evra

Reuters

Spilling mun kosta efnahag Þýskalands 250 milljarða evra á þessu ári samkvæmt nýrri rannsókn þrátt fyrir að landið mælist á meðal þeirra ríkja í heiminum þar sem hvað minnsta spillingu er að finna. Frá þessu er greint á fréttavefnum Thelocal.de en rannsóknin var unnin af Friedrich Schneider, hagfræðiprófessor við Johannes Kepler háskólann í Linz í Austurríki.

Fram kemur í fréttinni að umfang mútna og fyrirgreiðslna í röðum opinberra starfsmanna og aðila í viðskiptalífinu fari allajafna eftir stöðunni í efnahagslífinu. Því verra sem efnahagsástandið sé því líklegri séu embættismenn til þess að taka við mútum. En samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar spilar fleira inn í að mati Schneiders og þar á meðal það sem hann kýs að kalla „slæmir siðir í vaxandi mæli“.

Niðurstaða hans er sú að aðeins sé hægt að gera tvennt til þess að ná árangri í baráttunni gegn spillingu. Með hertari reglum og þyngri refsingum eða betri launum. Þá bætti hann því við að annað þyrfti ekki að útiloka hitt. Rannsókn Schneiders er byggð á gögnum frá stofnuninni Transparency International frá árinu 1995. Eins og staðan er í dag er Þýskaland í 14. sæti yfir minnst spilltu lönd heimsins.

Fram kemur í fréttinni að hagfræðingar telji spillingu skaða efnahagslífið þar sem hún valdi því gjarnan að þeir sem bjóði best og ódýrast fái ekki verkefni sem aftur leiði til minni fjárfestinga í slíkum verkefnum og komi að lokum niður á hagvexti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert