Hjarta grætt í Dick Cheney

Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, er sagður vera á batavegi eftir að hafa fengið grætt í sig nýtt hjarta fyrr í dag.

Fram kemur í tilkynningu frá talsmanni Cheneys, að hann hafi gengist undir aðgerðina á Inova Fairfax-sjúkrahúsinu í Falls Church í Virginíu í dag eftir að hafa verið á biðlista í 20 mánuði. Hann liggur nú á gjörgæsludeild sjúkrahússins.  

Cheney, sem er 71 árs, hefur lengi átt við vanheilsu að stríða. Hann fékk fyrst hjartaáfall árið 1978 aðeins 37 ára gamall. Hann fór í hjáveituaðgerð árið 1988 og fékk gangráð árið 2001. Árið 2010 var grædd í hann dæla sem átti að stilla hjartsláttinn. 

Cheney var varaforseti Georges W. Bush á árunum 2001 til 2009. Hann er talinn vera meðal valdamestu en jafnframt umdeildustu varaforsetum í sögu Bandaríkjanna. Hann hafði mikil áhrif bak við tjöldin á stefnu Bush um stríðið gegn hryðjuverkum, sem fól m.a. í sér innrásirnar í Írak og Afganistan, hleranir á bandarískum ríkisborgurum og notkun harkalegra yfirheyrsluaðferða sem teljast til pyntinga. 

Hann hefur látið til sín taka í röðum repúblikana síðan hann lét af embættinu og m.a. gagnrýnt Barack Obama Bandaríkjaforseta harðlega. 

Dick Cheney.
Dick Cheney.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert