Páfi: Kommúnismi virkar ekki

Benedikt XVI páfi er nú á faraldsfæti. Hann er staddur í Mexíkó, þar sem þúsundir manna tóku á móti honum með fagnaðarlátum. Eftir helgi leggur hann leið sína til Kúbu þar sem margir hafa beðið hans með eftirvæntingu en í dag lét hann ummæli falla sem ekki er víst að hafi hrifið alla í kommúnistaeyríkinu. 

„Það er augljóst í dag að hugmyndafræði marxista er í engu samræmi við raunveruleikann. Það er ekki hægt að byggja samfélag á þeim grunni, heldur verður að finna ný módel og vinna út frá þeim af þolinmæði og á uppbyggjandi hátt,“ sagði páfi. Hann bætti því við að kaþólska kirkjan væri reiðubúin að hjálpa Kúbverjum að taka skrefið fram á við „áfallalaust“.

„Augljóslega er kirkjan alltaf með frelsinu í liði, með frelsinu og með samviskunni.“ Páfi sagði að kirkjan væri alltaf með frelsinu í liði og styddi trúfrelsi.

Viðbrögð stjórnvalda í Havana við þessum yfirlýsingum hafa verið fremur fáleg, en utanríkisráðherra Kúbu, Bruno Rodriguez, sagði að pólitík myndi ekki takast að eyðileggja heimsókn páfa. „Hér á Kúbu mun páfi fyrirfinna þjóð sem elskar sitt föðurland, sem er stolt af menningu sinni, sjálfstæði og sannfæringu, stolt af félagsgerð sinni, lýðræði og einingu um réttlæti. Þjóð sem mun hlusta á Hans heilagleika af virðingu,“ sagði Rodriguez. 

Stjórnarandstæðingar, þar á meðal andspyrnuhreyfingin Hvítu frúrnar sem hefur mótmælt af kappi undanfarna daga, tóku gagnrýni páfa á kommúnisma og kalli eftir trúfrelsi fagnandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert