Sarkozy segist bjargvættur Frakka

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, segir að Frökkum sé hollast að kjósa sig á nýjan leik, að öðrum kosti gæti farið fyrir þeim eins og Grikkjum og Spánverjum. Þetta sagði Sarkozy í dag er hann kynnti stefnuskrá sína fyrir komandi forsetakosningar.

Fyrsta umferð forsetakosninganna verður eftir 17 daga.

Sarkozy hefur lagt til að opinber útgjöld verði skorin allverulega niður og hann segir að Frakkar standi nú frammi fyrir sögulegu vali; að kjósa á milli sín eða óhóflegrar eyðslu.

„Viss lönd eru á barmi hengiflugs,“ sagði forsetinn og lofaði landsmönnum því að undir hans stjórn myndi Frakkland enduruppgötva samkeppnishug sinn, frumkvæði, hæfni til fjárfestinga og minni eyðslu.

Gagnrýndi valdatíð sósíalista á Spáni

Hann sakaði mótframbjóðanda sinn, Francois Hollande, frambjóðanda Sósíalistaflokksins, um að lofa „peningaeyðsluveislu, sem enginn vissi hvernig ætti að greiða fyrir, eins og engin kreppa hefði verið í Evrópu.“

„Ástand mála á Spáni og í Grikklandi ýtir okkur inn í raunveruleikann. Sjáið bara hvernig mál standa á Spáni, eftir sjö ára valdatíð sósíalista,“ sagði Sarkozy, sem býður sig fram fyrir hönd hægriflokksins UMP.

Sarkozy hyggst hækka virðisaukaskatt úr 19,6 í 21,2%, að herða innflytjendalög og koma í veg fyrir að Frakkar leiti í skattaskjól. Hann segist geta komið fjárhag landsins í lag árið 2016.

Ætlar að fækka opinberum starfsmönnum

Að auki segist hann ætla að fækka opinberum starfsmönnum með því að endurráða ekki þegar fólk hættir störfum sökum aldurs. Einnig segist hann ætla að fara fram á það við Evrópusambandið að framlag Frakka til sameiginlegra sjóða þess verði fryst og með því segir hann að hægt verði að spara 600 milljónir evra.

Að auki lofar hann að standa við hina svokölluðu „Gullnu reglu“ þar sem ríkisstjórninni er gert skylt að gera áætlanir um að rétta við fjárhag landsins.

Mjótt á mununum

Hollande kynnti áætlun sína, sem er í 60 liðum, fyrr í vikunni og lýsti því yfir að breytingarnar myndu taka gildi strax, næði hann kjöri.

Gangi skoðanakannanir eftir verður mjótt á mununum á milli þeirra tveggja, en þær spá Sarkozy 31% fylgi og Hollande 29%. Aðrir frambjóðendur mælast með talsvert minna fylgi, vinstrimaðurinn Jean-Luc Melenchon er með um 15% og  Marine Le Pen, sem er langt til hægri mælist með 13% fylgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert