Hundruð viðstödd útförina

Kista Christoula var borin á brott undir dynjandi lófataki.
Kista Christoula var borin á brott undir dynjandi lófataki. Reuter

Hundruð manna voru viðstödd útför Dimitris Christoula sem fram fór í dag en hann fyrirfór sér á Syntagma-torgi í Aþenu á miðvikudag. „Áfram fólk, með höfuðið hátt, eina svarið er andspyrna,“ kallaði fólkið.

Christoula lést af skotsárum en hafði áður ritað kveðju þar sem hann sagði niðurskurðaraðgerðir grískra stjórnvalda hafa gert hann öreiga. „Ég sé enga aðra lausn til að binda enda á þetta með reisn, áður en ég neyðist til að fara í gegnum sorp til þess að geta borðað,“ skrifaði hann m.a.

Dóttir Christoula sagði við útförina að sjálfsmorð föður hennar hefði verið hápólitískt en við útförina voru einnig lesin upp skilaboð frá tónlistarhöfundinum Mikis Theodorakis, sem var mikil andspyrnuhetja í Grikklandi á sjöunda áratugnum.

Athöfnin var ekki af trúarlegum toga og verða líkamsleifar Christoula fluttar til Búlgaríu þar sem þær verða brenndar en bálfarir eru bannaðar í Grikklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert