Hótar að „granda“ eftirlitsfrumvarpi

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Tim Farron, þingmaður og framkvæmdastjóri Frjálslyndra Demókrata, lýsti því yfir í dag að Frjálslyndir Demókratar myndu gera út af við frumvarp um aukið eftirlit með internetnotkun ef frumvarpið verður ekki endurskoðað og því stillt í hóf.

Frumvarpið sem umræðir hefur í breskum fjölmiðlum verið uppnefnt „snuðrara sáttmálinn“ en það mun heimila breskum stjórnvöldum að fylgjast með netumferð, þ.e. dagsetningum, tímasetningum og auðkennum, í rauntíma ef það verður að lögum.

Farron ræddi frumvarpið í útvarpsþættinum Andrew Marr Show í breska ríkisútvarpinu, BBC 1, í dag. Þar sagðist hann vissulega sjá þörf fyrir það að skoða hvaða auknu heimildir þyrfti að veita lögregluyfirvöldum í ljósi tækninýjunga en slíkar heimildir mættu þó ekki vera almennar. „Við erum tilbúin til þess að granda þeim, það er alveg skýrt af okkur hálfu, ef til þess kemur,“ sagði Farron í þættinum og bætti við „Ef við teljum að þetta ógni frjálsu og frjálslyndu samfélagi þá verður þetta ekki spurning um að afnema lögin eða gera málamiðlanir, þetta hreinlega má ekki gerast.“ 

Frumvarpið þykir mjög umdeilt í Bretlandi og hefur ríkisstjórn landsins verið harðlega gagnrýnd fyrir það. Á meðal andstæðinga frumvarpsins eru háttsettir meðlimir Íhaldsflokksins og Frjálslyndra Demókrata. Mannréttindasamtök, og aðrir andstæðingar frumvarpsins, hafa varað við því að það brjóti gróflega gegn einstaklingsfrelsi og friðhelgi einkalífsins.

Nánar má lesa um málið á vefsíðu Daily Telegraph.

Tim Farron, þingmaður og framkvæmdastjóri Frjálslyndra Demókrata.
Tim Farron, þingmaður og framkvæmdastjóri Frjálslyndra Demókrata. Mynd tekin af vef Wikipedia.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert