Réttarhöldin yfir Breivik hefjast í dag

Útey, þar sem Anders Behring Breivik myrti 69 ungmenni 22. …
Útey, þar sem Anders Behring Breivik myrti 69 ungmenni 22. júlí í fyrra. Alls myrti hann 77 manns. AFP

Nú er verið að flytja norska fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik frá Ila öryggisfangelsinu til héraðsdómshússins í Ósló, þar sem réttarhöldin yfir honum munu hefjast klukkan sjö að íslenskum tíma. Breivik myrti 77 manns þann 22. júlí í fyrra.

Nokkur fjöldi lögreglubíla fylgdi fangaflutningabílnum sem Brevik var fluttur í frá fangelsinu.

Gríðarlegar öryggisráðstafanir eru í dómshúsinu og í næsta nágrenni þess. Til þess að komast inn í dómshúsið þurfa allir starfsmenn þess að ganga í gegnum öryggishlið, áþekkt því sem er á flugvöllum. Vopnaðir lögreglumenn standa vörð um húsið.

Blaðamenn víðs vegar að úr heiminum voru komnir í röð klukkan sex í morgun, þremur klukkustundum áður en réttarhöldin eiga að hefjast. Þeir koma víða að, meðal annars frá Kína og Bandaríkjunum. Byggja þurfti við dómshúsið vegna þessa og er talið að kostnaðurinn við þær framkvæmdir nemi meira en 100 milljónum norskra króna.

Allir, sem áhuga hafa og eru orðnir eldri en 18 ára, geta fengið aðgang að almenningssal í dómshúsinu, þar sem horfa má á beina útsendingu innan úr réttarsalnum. 

Tilfinningar Norðmanna til réttarhaldanna eru blendnar og hafa margir lýst því yfir að Breivik hafi með verknaði sínum fyrirgert rétti sínum til að fá að standa fyrir máli sínu. Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir að sama hvort fólki líki betur eða verr, þá sé um að ræða réttarhöld þar sem farið sé að reglum lýðræðisríkis. 

Réttarhöldin munu standa yfir næstu tvær vikurnar og eru útsendingar meðal annars á vefsíðum norska ríkissjónvarpsins norska dagblaðsins Aftenposten.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert