Þjálfaði sig tilfinningalega

Fjölmargir hafa komið fyrir rósum, tákni norska Verkamannaflokksins, fyrir við …
Fjölmargir hafa komið fyrir rósum, tákni norska Verkamannaflokksins, fyrir við hús héraðsdóms Óslóar, en þar fara nú fram réttarhöld yfir norska fjöldamorðingjanum. AFP

Erfiður dagur er framundan hjá norsku þjóðinni, en í dag verður farið yfir morðin sem norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik framdi í Útey og Ósló 22. júlí í fyrra. Hann segir að þjóðernissinnar hafi verið útilokaðir frá því að tjá sig á opinberum vettvangi og segist hafa verið að tjá skoðanir sínar með ódæðunum. Hann segist hafa þjálfað sig tilfinningalega fyrir morðin.

Í upphafi réttarhaldanna í morgun yfir norska fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik spurði Vibeke Hein Bæra, einn verjenda hans hann að því hvort hann skildi hversu þungt útskýringar hans í gær á því hvernig hann skipulagði ódæðisverk sín hefðu fengið á þá sem á hlýddu. „Algjörlega,“ svaraði hann. „Þetta snýst um skelfilega atburði.“

„Ég hefði ekki getað farið í gegnum þetta ef ég hefði ekki lokað á allar tilfinningar og talað um þetta á tæknilegum nótum.“

„Þú hefur sagt að það sem þú gerðir hafi verið skelfilegt, en nauðsynlegt. En þú hefur einnig talað um ólíðandi óréttlæti. Hvað áttu við með því?“ spurði Bæra. „Þetta snýst fyrst og fremst um tjáningarfrelsið og að margir fá ekki að tjá sig,“ svaraði Breivik.

Sakar fjölmiðla um kerfisbundna ritskoðun

Hann sagði að skoðanasystkin hans hefðu þurft að sæta ritskoðun frá lokum síðari heimstyrjaldar og að bæði norskir og erlendir fjölmiðlar beittu kerfisbundinni ritskoðun gagnvart einstaklingum og samtökum. „Þegar ég var 15 ára sá ég að það sem ég hafði lært í skólanum og lesið í blöðunum stemmdi ekki við raunveruleikann.“

Hann segist hafa upplifað það sem unglingur að þeir unglingar, sem voru innfæddir Norðmenn, fengu aðra og verri meðhöndlun en innflytjendur. Hann segir yfirvöld skjóta skjólshúsi yfir unga múslíma sem níðist á Norðmönnum og að fjölmiðlar styðji það. Þjóðernissinnar fái ekki áheyrn hjá fjölmiðlum, skoðanir þeirra þyki óæskilegar þar sem allir fjölmiðlamenn séu vinstrisinnaðir.

Gagnrýnir skólakerfið og kynhlutverkin

Breivik gagnrýnir skólakerfið og segir Norðmenn hafa fengið stuðning frá Moskvu í því skyni að taka upp kommúnískan hugsunarhátt og nefnir í því dæmi að búið sé að kasta hefðbundnum kynhlutverkum fyrir róða. „Allt í einu áttu drengir að prjóna og búa til mat og stúlkur áttu að fara í smíði.“

„Fólk segir að sá sem fremur svona verknað sé ekki mannlegur, að hann sé skrímsli. Þetta snýst um að þjálfa sig tilfinningalega. Ég var nokkuð eðlilegur allt fram til ársins 2006, þegar ég hóf þjálfunina og aftengdi mig tilfinningalega.“

Spurður að því hvað hann eigi við segir hann að norskir hermenn í Afganistan geri slíkt hið sama, þeir líti ekki á mótaðilann sem manneskjur og að það sé grunnhugmyndin í stríðsrekstri. 

Segist hafa verið félagslyndur

Bæra spurði hann að því hvort hann væri félagslyndur og hann sagðist hafa einangrað sig markvisst frá árinu 2006. „Ég vissi að þetta yrði sjálfsmorðsför og ég vildi vernda mína nánustu. En ég var félagslyndur fram að þessu. Ég notaði tölvuspilafíkn sem tylliástæðu. Ég er viðkunnanlegur undir venjulegum kringumstæðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert