Fylgi Sarkozy fer dvínandi

Síðustu skoðanakannanir sem birtar voru í dag, daginn fyrir forsetakosningarnar í Frakklandi, benda til þess að kjósendur gætu snúið baki við Nicolas Sarkozy sitjandi forseta. Andstæðingur hans Francois Holland er með talsvert forskot.

Sarkozy hefur verið afar áberandi á alþjóðavettvangi þau 5 ár sem hann hefur gegnt embætti, en heima fyrir er hann afar umdeildur og margir líta svo á að hann smjaðri of mikið fyrir efnafólki og yfirstéttinni. Atvinnuleysi hefur sjaldan verið meira og efnahagsvandræðin í forsetatíð hans hafa gefið sósíalistanum Francois Hollande byr undir báða vængi. 

Ætlar að slá Hollande rothöggi í seinni umferð

Að sögn Paul Taylor, ritstjóra Reuters í evrópskri pólitík, er þó of snemmt að telja Sarkozy úr leik. „Nicolas Sarkozy telur að þegar hann og Francois Hollande verði einir eftir í hringnum, ef svo má segja, í annarri umferð, þá geti hann enn gefið rothögg sama hversu miklu hann virðist vera að tapa í skoðanakönnunum. Og það er það sem hann stefnir að.“

Sumir Frakkar segjast hafa fengið svo upp í kok af pólitík og stjórnmálamönnum að þeir kæri sig ekki um að kjósa. Þessar raddir virðast telja ólíklegt að nokkur frambjóðendanna geti tekið á þeim vanda sem franska þjóðin stendur frammi fyrir. 

Kjörklefar verða opnaðir kl. 6 í fyrramálið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert