Stjórnin riðar til falls í Hollandi

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte og aðstoðarforsætisráðherra, Maxime Verhagen, ræða við …
Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte og aðstoðarforsætisráðherra, Maxime Verhagen, ræða við fréttamenn í dag AFP

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, staðfestir við fréttamenn að útlit sé fyrir fall ríkisstjórnarinnar þar í landi eftir að viðræður um niðurskurð í landinu runnu út í sandinn í dag. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra á ekki von á að þetta hafi nein áhrif á Icesave-málið án þess þó að geta fullyrt þar neitt um.

Viðræður hafa staðið yfir að undanförnu um 16 milljarða evra niðurskurð hins opinbera í Hollandi en viðræðunum var slitið í dag að sögn Rutte. Segir hann að viðræður flokkanna þriggja sem komu að þeim hafi komist á endastöð í dag og ljóst sé að ekki var hægt að komast að samkomulagi. „Kosningar eru augljósar,“ bætti Rutte við þegar hann ræddi við fréttamenn í Haag í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneyti Hollands er útlit fyrir að fjárlagahallinn verði 4,6% af vergri landsframleiðslu á næsta ári en reglur Evrópusambandsins kveða á um að fjárlagahallinn fari ekki yfir 3%.

Sjö vikur eru síðan viðræðurnar hófust um hvernig hægt væri að koma Hollandi á réttan kjöl varðandi fjárlagahallann. Rutte segir að ein helsta skýringin á að ekki tókst að ná samkomulagi lúti að viðhorfum þingmannsins Gerrt Wilders sem berst hatramlega gegn Evrópusambandinu.

Að sögn Rutte mun ríkisstjórnin hittast á fundi á mánudag, en ríkisstjórnin er minnihlutastjórn sem hefur notið stuðnings Frelsisflokks Wilders. „Kosningar eru eðlilegt framhald,“ en segir að reynt verði til þrautar að komast að samkomulagi á hollenska þinginu um niðurskurðaráætlunina áður en gengið verður til kosninga.

Samdráttur ríkir í Hollandi og útlit fyrir að fjárlagahallinn fari í 4,6% á næsta ári. Hollenskir þingmenn hafa krafist þess að ríki eins og Grikkir þurfi að uppfylla skilyrði ESB um að hallinn fari ekki yfir 3%.

Ríkisstjórn Rutte, sem er leiðtogi hægri flokksins VVD, tók við völdum seint árinu 2010 en auk WD eiga Kristilegir demókratar (CDA) aðild að stjórninni. 

VVD fékk mest fylgi í þingkosningunum í Hollandi 2010 eða 31 sæti af 150. Kristilegir demókratar fengu 21 sæti og fylgi þeirra minnkaði um helming. Flokkurinn hefur verið í nær öllum ríkisstjórnum sem myndaðar hafa verið í Hollandi frá síðari heimsstyrjöldinni.

Fylgi Frelsisflokksins stórjókst í kosningunum og þingmönnum hans fjölgaði úr níu í 24.

Wilders segir að hann geti ekki sætt sig við að gamla fólkið í Hollandi þurfi að greiða fyrir fáránlegar kröfur frá Brussel. Á morgun mun Wilders fara til Bandaríkjanna til að kynna nýja bók sína, Marked for Death. Islam’s war against the West and Me en hann er  þekktur fyrir baráttu sína gegn íslam og andstöðu sína við innflytjendur.

Geert Wilders leiðtogi Frelsisflokksins í Hollandi.
Geert Wilders leiðtogi Frelsisflokksins í Hollandi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert