Fylgi Marine Le Pen kemur á óvart

Marine Le Pen kaus í Henin-Beaumont í Norður-Frakklandi í dag.
Marine Le Pen kaus í Henin-Beaumont í Norður-Frakklandi í dag. AFP

Fylgi Marine Le Pen kemur mörgum á óvart en samkvæmt útgönguspám fékk hún 18,2-20% atkvæða í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna í dag. Er það meira fylgi en kom föður hennar, Jean-Marie Le Pen, áfram í seinni umferðina árið 2002.

Er þetta mesta fylgi sem Þjóðfylkingin, sem er þjóðernissinnaður hægriflokkur, hefur fengið í kosningum í Frakklandi en Jean-Marie Le Pen stofnaði flokkinn árið 1972. Flokkurinn berst gegn innflytjendum, einkum þeim sem eru íslamstrúar.

Árið 2002 fékk Jean-Marie Le Pen 17% í fyrri umferðinni og komst áfram í aðra umferðina þar sem hann galt mikið afhroð. Árið 2007 fékk hann 10% atkvæða.

„Ég rétti henni keflið og hún  hleypur hraðar en ég og mun betur,“ sagði Le Pen þegar dóttir hans tók við formennsku í flokknum í fyrra.

Þrátt fyrir gott gengi í kosningunum í dag eru það væntanlega Francois Hollande, frambjóðandi Sósíalistaflokksins, sem er með 28-29% atkvæða samkvæmt útgönguspám, sem mætir forseta Frakklands, hægrimanninum Nicolas Sarkozy, í seinni umferðinni þann 6. maí nk. en Sarkozy er með 25,5%-27% samkvæmt útgönguspám.

Ef svo fer sem fram horfir verður Sarkozy fyrstur franskra sitjandi forseta til þess að tapa í fyrri umferðinni í mjög langan tíma en ef Sarkozy tapar seinni umferðinni verður hann fyrsti sitjandi forseti Frakklands til þess að tapa forsetakosningum frá því  Valery Giscard d'Estaing tapaði fyrir Mitterand árið 1981.

Jean-Marie Le Pen neitaði að upplýsa fjölmiðla um það í kvöld hvort hann myndi styðja Sarkozy eða Hollande í seinni umferðinni. En sagði: „Ég held að tími Sarkozys sé liðinn.“

Jean-Marie Le Pen var glaður í bragði þegar fyrstu tölur …
Jean-Marie Le Pen var glaður í bragði þegar fyrstu tölur voru birtar í kvöld AFP
Sarkozy og Hollande
Sarkozy og Hollande AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert