Hollande með 28,5%

Sósíalistinn Francois Hollande fékk flest atkvæði í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna í dag ef marka má fyrstu tölur en samkvæmt útgönguspám fékk Hollande 28,4% atkvæða.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, fékk 25,5% og er í öðru sæti. Því er allt útlit fyrir að þeir tveir mætist í seinni umferðinni hinn 6. maí nk.

Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðarfylkingarinnar, er í þriðja sæti samkvæmt útgönguspám, með 18.2-20% og Jean-Luc Melenchon, frambjóðandi Vinstri fylkingarinnar, sem nýtur stuðnings kommúnista í því fjórða. Miðjumaðurinn Francois Bayrouer í fimmta sæti.

Ólíkir frambjóðendur

Í grein sem Karl Blöndal ritaði í Morgunblaðið nýverið bar hann þá Hollande og Sarkozy saman.

„Ólíkari frambjóðendur en Nicolas Sarkozy og Francois Hollande eru vandfundnir. Hollande er hæglátur og leitast við að miðla málum, en Sarkozy hvatvís og fullur af orku. Þegar Sarkozy var kosinn forseti Frakklands árið 2007 eftir að Jacques Chirac hafði setið við völd í 12 ár vonuðust franskir kjósendur margir til þess að hann mundi hrista upp í stöðnuðu samfélagi og kraftur hans og afdráttarlaus stíll myndu nýtast Frakklandi vel á tímum hnattvæðingar. Nú berst Sarkozy fyrir pólitísku lífi sínu,“ ritar Karl.

Metnaðargjarn en gjarn á að misstíga sig

Nicolas Sarkozy de Nagy-Bosca er sonur ungversks innflytjanda og franskrar móður af grískum uppruna. Frami Sarkozys ber metnaði hans vitni. Hann braust til metorða án þess að vera innvígður í valdastéttina í París eða vera í innsta hring í pólitíkinni á landsbyggðinni.

Sarkozy hóf afskipti af stjórnmálum þegar hann var 19 ára. 28 ára varð hann bæjarstjóri í Neuilly-sur-Seine, þingmaður 34 ára og ráðherra 38 ára. Hann var 52 ára þegar hann var kosinn forseti.

Í upphafi ferilsins tók Chirac Sarkozy upp á arma sína, en þeim sinnaðist síðar. Chirac segir að Sarkozy hafi „aldrei efast, sérstaklega ekki um sjálfan sig“.

Sarkozy hefur ekki síður borist á í einkalífi en í embættisfærslum sínum. Hann skildi við aðra konu sína skömmu eftir að hann varð forseti og gekk síðan að eiga fyrirsætuna Cörlu Bruni og átti með henni barn. Var það í fyrsta skipti sem franskur forseti hefur átt barn í embætti.

Þegar best lét hjá Sarkozy var hann vinsælasti forseti Frakklands frá því að Charles de Gaulle sat í forsetastólnum.

Sarkozy hefur þó verið gjarn á að misstíga sig. Fyrsti afleikurinn kom á kosningakvöldið þegar hann fagnaði sigri á glansveitingastaðnum Fouquet's ásamt helstu auðmönnum landsins og skömmu síðar tók hann sér frí á snekkju auðugs vinar síns.

Í lánsfjárkreppunni 2008 og samdrættinum í kjölfarið hélt Sarkozy hvern neyðarfundinn á eftir öðrum til bjargar evrunni. Í huga margra kjósenda sat hins vegar eftir ímyndin af leiðtoganum með Rolex-úrið og Rayban-sólgleraugun. Þar við bættist öll umfjöllunin um tilhugalíf og hjónaband hans og Bruni. Eins og það er orðað í fréttaskýringu AFP varð til mynd af leiðtoga sem var „ástfangnari af sjálfum sér en Frakklandi“.

Aldrei ráðherra en alltaf með í ráðum

Hollande fæddist árið 1954 í borginni Rouen. Faðir hans var læknir og mun hafa verið lengst á hægri kanti stjórnmálanna og móðir hans félagsfulltrúi.

Jacques Delors, sem um tíma var nánasti samnefnari fyrir Evrópusambandið og breytingar innan þess í átt til aukins samruna, tók Hollande undir sinn verndarvæng. Hollande tilheyrir þeirri kynslóð stjórnmálamanna, sem varð til í valdatíð, Francois Mitterrands, síðasta og eina forseta sósíalista, sem lét af embætti 1995.

Hollande var í þrjá áratugi í sambandi við Segolene Royal, sem laut í lægra haldi fyrir Sarkozy í kosningunum 2007. Þau skildu fyrir kosningarnar, en ekki var greint frá því opinberlega fyrr en að þeim loknum.

Árið 1997 gerði Lionel Jospin, þáverandi forsætisráðherra, Hollande að formanni Sósíalistaflokksins.

Mikið hefur verið gert úr því í kosningabaráttunni að Hollande hafi aldrei verið ráðherra eða gegnt öðrum ábyrgðarstörfum. Í forkosningum sósíalista um hver skyldi bjóða fram fyrir hönd flokksins komu meira að segja fram ásakanir um að hann gæti ekki tekið ákvarðanir. Jospin hefur hins vegar komið honum til varnar og sagt að við hann hafi verið haft „víðtækt samráð um allar ákvarðanir“ meðan hann var við völd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert